Ekki rétt eftir mér haft

Jose Sito Seoane fagnar eftir að hafa skorað fyrir ÍBV.
Jose Sito Seoane fagnar eftir að hafa skorað fyrir ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Spænski knattspyrnumaðurinn José Seoane, kallaður Sito, sem lék með Eyjamönnum seinni hluta nýliðins keppnistímabili, segir að það sé ekki rétt eftir sér haft í spænska netmiðlinum adiantegalicia.es að hann sé genginn til liðs við Fylki.

„Ég sagði þeim að ég ætti eftir að velja á milli Fylkis og ÍBV en þeir settu það svona upp. Annars veit ég bara að ÍBV hefur verið í viðræðum við umboðsmanninn minn og þetta er allt óljóst ennþá," sagði Sito við mbl.is en í umræddu viðtali er haft eftir Sito að hann sé búinn að ákveða að skipta um félag og semja við Fylki. Einnig séu möguleikar fyrir hendi að hann fari til Danmerkur eða Noregs á næstu mánuðum.

Eyjamenn tilkynntu í fyrradag að þeir myndu kæra Fylki fyrir að hafa rætt við leikmann sinn án heimildar og ljóst er að þar átti Sito í hlut.

Hann lék mjög vel með ÍBV eftir að hafa komið til liðsins á miðju sumri og skoraði 6 mörk í 11 leikjum í seinni umferð Íslandsmótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert