„Við fórum í ræktina klukkan sex í morgun og þegar við komum út klukkutíma síðar var búið að ræna bílnum,“ sagði Brynjar Benediktsson, knattspyrnumaður úr Fram, en bifreið í eigu hans og Jónu Kristínar Hauksdóttur, leikmanns Íslandsmeistara Breiðabliks, var stolið fyrir utan Turninn í Kópavogi í morgun.
Parið hafði mætt snemma í morgun í líkamsræktarstöð World Class í Turninum og lagt bifreið sinni á bílaplanið við Smáratorg. Um er að ræða bláan Chevrolet Kalos, með bílnúmerið UE-771, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Brynjar segir ekki ljóst hvernig tekist hafi að stela bílnum, þar sem bíllyklar parsins hafi ekki verið teknir:
„Það er það skrýtna við þetta. Við áttum okkur ekki alveg á hvernig þetta gat gerst vegna þess að bíllinn var læstur. Maður er ekki vanur að lenda í einhverju svona. Vonandi finnst bíllinn bara,“ sagði Brynjar.
Þeim sem verða bílsins varir er bent á að hafa samband við lögreglu. Einnig er hægt að hafa samband við Brynjar í síma 6989849 eða á brynjarben@gmail.com.