Gunnar Nielsen í markið hjá FH

Gunnar Nielsen í Kaplakrika í dag.
Gunnar Nielsen í Kaplakrika í dag. mbl.is/Kris

FH-ingar kynntu í dag færeyska landsliðsmarkvörðinn Gunnar Nielsen til leiks sem sinn nýjasta leikmann. Gunnar lék með Stjörnunni á síðustu leiktíð en var laus allra mála hjá Garðabæjarfélaginu. Hann samdi til þriggja ára við Íslandsmeistarana.

Gunnar er 29 ára gamall, reynslumikill markvörður. Hann fór ungur að árum í atvinnumennsku, fyrst til Frem í Danmörku en svo til Blackburn og stórliðs Manchester City á Englandi. Hann lék svo með Silkeborg í Danmörku og Motherwell í Skotlandi áður en hann kom til Stjörnunnar snemma á þessu ári.

Gunnar lék 20 leiki í Pepsideildinni með Stjörnunni í sumar og hélt markinu hreinu í sex þeirra.

Róbert Örn Óskarsson hefur verið aðalmarkvörður FH síðustu þrjú keppnistímabil. Hann hélt markinu hreinu í 5 af 22 leikjum í Pepsideildinni í sumar og var valinn í A-landsliðið fyrir lokaleik þess í undankeppni EM nú í haust, gegn Tyrklandi, eftir að Hannes Þór Halldórsson meiddist.

FH-ingar höfðu áður fengið miðvörðinn Bergsvein Ólafsson, fyrirliða Fjölnis, nú í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert