„Lilleström er ekki búið að bjóða mér nýjan samning svo staðan hjá mér er óljós og ég ligg eiginlega undir feldi. Það er alveg mögulegt að ég snúi aftur heim. Ef það verður ekkert spennandi sem býðst hérna í Noregi eða á öðrum stöðum í Skandinavíu þá er alveg eins gott að skoða eitthvað heima á Íslandi,“ sagði Finnur Orri Margeirsson, leikmaður norska úrvalsdeildarliðsins Lilleström, við Morgunblaðið í gær.
Finnur Orri gekk í raðir Lilleström fyrir tímabilið eftir afar stutt stopp í FH. Hann samdi við FH eftir síðustu leiktíð en ákvæði voru í samningnum um að ef honum byðist samningur frá erlendu félagi þá mætti hann fara. Lilleström gerði honum tilboð og í kjölfarið skrifaði hann undir eins árs samning við félagið.
„Ég hef ekkert heyrt frá Lilleström svo kannski er það bara vísbending um að það ætli ekki að bjóða mér nýjan samning. Mér líkar vel hérna og flest allt hefur staðist væntingar en ég hefði auðvitað kosið að spila meira en ég hef gert að undanförnu,“ sagði Finnur en hann hefur mátt sætta sig við að verma varamannabekkinn töluvert í síðustu leikjum.
Spurður hvort félög heima á Íslandi hafi sett sig í samband við hann sagði Finnur; „Jú, ég neita því ekki að ég hef heyrt frá Breiðabliki, FH og KR en eins og ég sagði áðan þá eru mín mál ennþá í óvissu hvað Lilleström varðar.“