Pólverjar sneru blaðinu við í Varsjá

Pólland lagði Ísland að velli þegar þjóðirnar mættust í vináttulandsleik í knattspyrnu í kvöld fyrir framan 58 þúsund manns sem troðfylltu Norodowy-leikvanginn í Varsjá. Ísland var marki yfir í hálfleik en eftir hlé sneru heimamenn blaðinu við, skoruðu fjögur mörk og uppskáru tveggja marka sigur, 4:2.

Leikurinn var aðeins fjögurra mínútna gamall þegar Ísland fékk vítaspyrnu. Kolbeinn Sigþórsson var þá að gera sig líklegan innan teigs, en var felldur og vítaspyrna dæmd. Gylfi Þór Sigurðsson steig á punktinn og skoraði af gríðarlegu öryggi upp í hægri vinkilinn og kom Íslandi yfir. Öruggari gerast spyrnurnar vart, en Kolbeinn þurfti fljótlega að fara af velli vegna meiðsla sem hann hlaut í aðdraganda vítaspyrnunnar.

Jafnræði var með liðunum eftir markið þó Pólverjar hafi verið meira með boltann. Hólmar Örn Eyjólfsson kom inn í hjarta varnarinnar við hlið Ragnars Sigurðssonar, og þeir héldu pólsku sóknarlínunni í skefjum þar sem Robert Lewandowski var fremstur í fararbroddi. Heimamenn náðu þar af leiðandi ekki að skapa sér hættuleg færi, en íslenska liðið var beinskeytt í skyndisóknum sínum.

Ragnar Sigurðsson skallaði rétt framhjá eftir aukaspyrnu Gylfa Þórs, sem sjálfur átti skot rétt framhjá markinu eftir hraða sókn. Pólverjar pressuðu stíft undir lok fyrri hálfleiks en vörnin hélt með Ögmund Kristinsson þar fyrir aftan, staðan 1:0 fyrir Ísland í hálfleik.

Pólverjar voru fljótir að jafna metin eftir hlé og það gerði Kamil Grosicki með hörkuskoti á 56. mínútu. Eftir snarpa sókn fékk hann boltann hægra megin í teignum, lagði hann fyrir sig og þrumaði í netið, en boltinn virtist hafa viðkomu í Ara Frey Skúlasyni á leiðinni í markið.

Pólverjar sóttu í sig veðrið eftir markið og sóttu stíft, en skyndisóknir Íslendinga voru hættulegar. Jón Daði Böðvarsson náði í tvígang góðum sendingum fyrir markið eftir sprett upp vinstri kantinn, en byrinn var hins vegar með Pólverjum. Á 66. mínútu komust þeir yfir þegar Bartosz Kapustka, sem nýkominn var inn sem varamaður, skoraði með föstu skoti úr teignum eftir að Íslendingar náðu ekki að koma boltanum frá.

Pólverjar höfðu hins vegar ekki mikinn tíma til að fagna, því aðeins þremur mínútum eftir að hafa komist yfir jafnaði Alfreð Finnbogason metin, en hann hafði leyst Kolbein af hólmi í fyrri hálfleik. Hann sneri þá af sér varnarmann við miðlínuna, geystist af stað í átt að markinu með þrjá Pólverja á hælunum en skilaði boltanum örugglega framhjá Wojciech Szczesnu í marki heimamanna. Staðan 2:2.

Fjörið var hins vegar ekki búið því aðeins sex mínútum eftir jöfnunarmarkið komust Pólverjar yfir á ný. Eftir hornspyrnu náðu Íslendingar ekki að hreinsa frá og það endar með því að markahrókurinn Robert Lewandowski sópar boltanum yfir línuna af markteig. Staðan 3:2 fyrir Pólverja og stundarfjórðungur eftir.

Aðeins fjórum mínútum eftir markið var Lewandowski aftur á ferðinni og skoraði fjórða mark Pólverja eftir hraða sókn. Íslendingar bættu í pressuna sem kom niður á varnarlínunni, og sóknarmaðurinn skæði var einn gegn Hólmari Erni í vörninni. Hann gerði færið þröngt fyrir þann pólska, sem náði hins vegar hnitmiðuðu skoti á markið hægra megin úr vítateignum sem endaði í netinu. Staðan 4:2.

Íslendingar reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn síðustu mínúturnar án þess að skapa sér teljandi færi. Leikurinn fjaraði að lokum út og fóru Pólverjar því með tveggja marka sigur af hólmi, lokatölur 4:2.

Bæði liðin leika í loka­keppni Evr­ópu­móts­ins í Frakklandi næsta sum­ar og leik­ur­inn var fyrsti liður­inn í und­ir­bún­ingi beggja fyr­ir keppn­ina. Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.

Pólland 4:2 Ísland opna loka
90. mín. Robert Lewandowski (Pólland) fer af velli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert