Aron Sigurðarson, leikmaður Fjölnis í Pepsi-deild karla í knattspyrnu, mun fara til Noregs og vera á reynslu hjá Tromsö í vikutíma. Fotbolti.net greinir frá þessu.
Aron heldur utan þann 18. þessa mánaðar og vera í viku hjá Tromsö, sem lenti í þrettánda sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.
Aron er uppalinn í Fjölni og hefur leikið 103 leiki í deild og bikar. Þar hefur hann skorað 23 mörk, þar af sex í Pepsi-deildinni síðasta sumar og fékk meðal annars tólf M í einkunnagjöf Morgunblaðsins í fyrstu ellefu leikjunum.