Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, heldur enn í vonina um að Svíinn Lars Lagerbäck framlengi samning sinn við KSÍ sem landsliðsþjálfari karla.
Samningur Lagerbäcks við KSÍ rennur út eftir Evrópumótið í Frakklandi í sumar en Svíinn hefur náð frábærum árangri með landsliðið eftir að hann tók við því í ársbyrjun 2012. Heimir Hallgrímsson var aðstoðarmaður hans fyrstu tvö árin en frá árinu 2014 hafa þeir stýrt liðinu í sameiningu og Heimir á að óbreyttu að taka einn við stjórninni að Evrópukeppninni lokinni.
„Við höfum rætt lítillega þessi mál, ég og Lars, en við ætlum að setjast niður og ræða betur saman í næsta mánuði. Það er alltaf von á meðan við erum að ræða saman en það er eindreginn vilji KSÍ að halda honum,“ sagði Geir í samtali við Morgunblaðið.
Lars Lagerbäck er 68 ára gamall og hann er að fara með landslið í lokakeppni stórmóts, EM eða HM, í sjöunda sinn. Undir stjórn Lagerbäcks og Tommy Söderbergs komust Svíar í úrslitakeppni EM 2000 og 2004 og í úrslitakeppni HM 2002. Lagerbäck stýrði Svíum í úrslitakeppni HM 2006 og í úrslitakeppni EM 2008 og liði Nígeríu á HM 2010.