Óánægður með vinnubrögð KR-inga

Hólmbert Aron Friðjónsson í Evrópuleik með KR gegn Rosenborg.
Hólmbert Aron Friðjónsson í Evrópuleik með KR gegn Rosenborg. mbl.is/Styrmir Kári

Janne Andersson, þjálfari sænska knattspyrnuliðsins Norrköping, virðist síður en svo ánægður með það hvernig gengið hefur að komast að samkomulagi við KR um kaup á framherjanum Hólmberti Aroni Friðjónssyni.

Norrköping, sem varð sænskur meistari á síðustu leiktíð, hefur gert KR tvö tilboð í Hólmbert en þeim hefur báðum verið hafnað. Frá þessu var fyrst greint í íslenskum vefmiðlum, á fótbolti.net og 433.is, án þess að vitnað væri í heimildamann. Andersson virðist sérstaklega óánægður með að sagt hafi verið frá tilboðunum, og jafnframt reikna með að upplýsingarnar komi úr herbúðum KR:

„Ég hef afskaplega lítinn skilning á því þegar verið er að segja frá tilboðum. Ég hef aldrei lent í því áður. Þessi samskipti eiga að vera á milli félaganna. Þetta eru ótrúleg vinnubrögð,“ sagði Andersson við Folkbladet.

Norrköping mun þurfa að leggja fram nýtt tilboð til að klófesta Hólmbert og Andersson segir ekki útilokað að það verði gert:

„Við höfum áhuga. Við sjáum til hvernig þetta fer. Það er ekkert útilokað,“ sagði Andersson.

Hólm­bert, sem er 22 ára gamall, kom til KR á miðju sumri í fyrra og skrifaði und­ir samn­ing til árs­ins 2017. Hann hélt út í at­vinnu­mennsku eft­ir frá­bært tíma­bil með Fram árið 2013 og gekk í raðir Celtic í Skotlandi. Þaðan fór hann að láni til danska fé­lags­ins Brönd­by áður en hann sneri aft­ur til Íslands. Hann heimsótti Norrköping í lok síðasta mánaðar og kannaði þar aðstæður auk þess að æfa með liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert