Arna Sif Ásgrímsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, fótbrotnaði í 1:0 tapi liðsins gegn Kanada á Algarve mótinu í gær.
Arna Sif var í byrjunarliði íslenska liðsins, en varð svo að fara af velli á 78. mínútu leiksins vegna höggs sem hún fékk og myndatökur í gærkvöldi leiddu í ljós sprungu í fæti Örnu Sifjar.
„Læknarnir sögðu að ég verði frá í allavega fjórar til sex vikur, en ég fer svo í endurmat þegar ég kem til Íslands í næstu viku. Ég fann það strax eftir að ég fékk höggið að ég gat ekki lagt þunga á fótinn og áttaði mig á því að þetta væri líklega fótbrot,“ sagði Arna Sif í samtali við mbl.is í dag.
Arna Sif missir þar af leiðandi að öllum líkindum af leik íslenska liðsins gegn Hvíta-Rússlandi í undankeppni EM sem fram fer ytra þriðjudaginn 12. apríl.