Knattspyrnumaðurinn Aron Sigurðarson, sem byrjað hefur vel með Tromsö á sinni fyrstu leiktíð í norsku úrvalsdeildinni, missir af næstu leikjum liðsins vegna hnémeiðsla.
Aron meiddist á æfingu á mánudaginn og skoðun lækna leiddi í ljós að lítil rifa hefði myndast í liðbandi. Þetta staðfesti Aron við Mbl.is í dag.
„Ég veit ekki nákvæmlega hve lengi ég verð frá keppni en þetta eru ekki langvinn meiðsli. Þetta tekur kannski nokkrar vikur,“ sagði Aron við Mbl.is.
Aron skoraði afar laglegt mark í 1. umferð úrvalsdeildarinnar, gegn meistarakandídötunum í Molde, fyrr í þessum mánuði en hann var keyptur til Tromsö í vetur frá Fjölni. Tromsö leikur fjóra leiki á næstu þremur vikum, þann næsta gegn Odd á sunnudaginn.