„Það er ekki hægt að biðja um mikið meira. Við skoruðum fimm mörk og héldum þeim nánast í þeirra eigin vítateig allan leikinn. Við náðum að nýta færin betur en í heimaleiknum og skoruðum meira sem er jákvætt,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir, framherji íslenska kvennalandsliðsins, í knattspyrnu, sem skoraði þrennu fyrir liðið sem vann 5:0 sigur gegn Hvít-Rússum í undankeppni EM í Minsk í dag.
„Mér finnst við orðnar betri í að spila leiki þegar við erum mikið meira með boltann og það er í okkar höndum að stjórna ferðinni. Við slökuðum ekkert á og héldum pressunni frá upphafi til enda sem er mikið styrkleikamerki,“sagði Harpa um spilamennsku íslenska liðsins í dag.
„Við lögðum upp með að vera í þessari stöðu eftir fyrstu fjórar umferðirnar og við getum ekki beðið eftir því að spila við Skotland. Nú fer maður bara heim og undirbýr sig eins vel og mögulegt er til þess að vera í eins góðu formi og nokkur kostur er í byrjun júní,“ sagði Harpa um framhaldið, en Ísland mætir Skotlandi í toppslag riðilsins í Skotlandi 3. júní næstkomandi.