Erlendum leikmönnum í efstu deild karla hefur fjölgað mjög frá síðasta ári. Í fyrra voru 43 erlendir leikmenn í liðunum tólf þegar Íslandsmótið hófst en núna eru þeir 61 talsins og hafa aldrei verið jafn margir.
Danir voru fjölmennastir í fyrra og voru þá átta talsins en nú eru þeir orðnir tvöfalt fleiri. Alls hefja 16 Danir þetta Íslandsmót og þar af eru fimm í KR, þrír í Fjölni og þrír í Val.
ÍBV er með flesta erlenda leikmenn í sínum röðum, tíu talsins, en í þeim hópi eru Englendingarnir Ian Jeffs og Matt Garner, sem hafa verið hér á landi í meira en áratug.
FH og Víkingur frá Ólafsvík eru með átta erlenda leikmenn hvort félag, Þróttur sjö, Fjölnir er með sex, KR og Víkingur í Reykjavík fimm hvort lið, Valur og Breiðablik eru með þrjá útlendinga hvort en fæstir eru þeir hjá Fylki og Stjörnunni, tveir hjá hvoru félagi.
Erlendu leikmennirnir eru af 22 þjóðernum sem skiptast þannig:
Danmörk 16
England 10
Króatía 4
Bosnía 3
Brasilía 3
Skotland 3
Spánn 3
Belgía 2
El Salvador 2
Færeyjar 2
Serbía 2
Bandaríkin 1
Holland 1
Jamaíka 1
Kósóvó 1
Makedónía 1
Malí 1
Noregur 1
Pólland 1
Svíþjóð 1
Trínidad og Tóbagó 1
Úganda 1
Þessi grein er úr 40 síðna fótboltablaðinu sem fylgdi Morgunblaðinu á föstudaginn.