„Ég er óánægð með að tapa niður forystunni undir lok leiksins. Eftir að vera komin í 2:1 hefði ég viljað halda forskotinu og tryggja okkur öll þrjú stigin,“ sagði Sandra Sif Magnúsdóttir, hægri bakvörður Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 2:2 jafntefli liðsins gegn Val í fyrstu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.
„Við hefðum eftir á að hyggja átt að stíga hærra upp á völlinn og setja meiri pressu á þær. Við féllum of langt til baka og það kom okkur í koll undir lok leiksins. Mér fannst við spila vel heilt yfir og sköpuðum fullt af færum sem er mjög jákvætt,“ sagði Sandra Sif enn fremur.
„Okkur líst ekkert sérstaklega á að vera spáð sjötta til sjöunda sæti deildarinnar. Við ætlum okkur að vera ofar og við sýndum það í þessum leik að við eigum fullt erindi í toppbaráttuna. Ég tel okkur vera með sterkara lið en í fyrra og við erum afar vel undirbúin. Það eru því allar forsendur til þess að gera okkur gildandi á toppi deildarinnar í sumar,“ sagði Sandra Sif um framhaldið hjá Fylki.