Pyrrhosarsigur Stjörnunnar á Selfossi

Harpa Þorsteinsdóttir skoraði eitt af mörkum Stjörnunnar í gærkvöld.
Harpa Þorsteinsdóttir skoraði eitt af mörkum Stjörnunnar í gærkvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir tvær umferðir í Pepsi-deild kvenna er Stjarnan eina liðið með fullt hús stiga. Stjarnan vann Selfoss á útivelli, 1:3, í miklum baráttuleik á JÁVERK-vellinum í gærkvöldi.

Þetta var sannkallaður Pyrrhosarsigur því tveir lykilmenn Stjörnunnar fóru meiddir af velli. Þrátt fyrir það náðu þær bláu að krækja í dýrmæt stig í deildarkeppni sem gæti orðið jafnari en marga grunaði fyrir mót.

Það tók liðin nokkra stund að finna taktinn á ágætlega útlítandi grasvellinum á Selfossi. Þegar leið á fyrri hálfleikinn hafði Stjarnan betur í baráttunni inni á miðsvæðinu og áttu margar auðveldar sóknir upp vinstri kantinn. Upp úr einni slíkri áætlunarferð, á 34. mínútu, sendi Ana Cate boltann fyrir markið þar sem Harpa Þorsteinsdóttir afgreiddi hann frábærlega í netið af stuttu færi. Markið hafði legið í loftinu og á þessum tímapunkti var Stjarnan líkleg til að taka leikinn algjörlega yfir.

Það gerðist þó ekki því aðeins tveimur mínútum síðar var Guðmunda Brynja Óladóttir búin að jafna fyrir Selfoss með góðu skoti úr teignum eftir frábæran undirbúning frá Karitas Tómasdóttur. Selfossliðið var líklegra til þess að bæta við marki á lokakafla fyrri hálfleiks, en allt kom fyrir ekki. Þetta var besti kafli Selfoss í leiknum sóknarlega.

Það bar nokkurn skugga á góðan sigur Stjörnunnar að bæði Ásgerður Baldursdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir fóru meiddar af velli, Ásgerður í fyrri hálfleik og Harpa snemma í síðari hálfleik. Algjörir lykilmenn fyrir liðið en liðið þjappaði sér saman í mótlætinu og Katrín Ásbjörnsdóttir náði að skora gott mark á 61. mínútu. Annars var síðari hálfleikurinn mun rólegri en sá fyrri, þó að bæði lið hafi meðal annars bjargað á línu.

Sjá allt um leikina í Pepsi-deild kvenna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert