Verð ekki farþegi í liðinu

Eiður Smári Guðjohnsen í leik með íslenska liðinu í undankeppni …
Eiður Smári Guðjohnsen í leik með íslenska liðinu í undankeppni EM 2016. mbl.is/Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Eiður Smári Guðjohnsen mun uppskera laun erfiðisins þegar hann heldur til Frakklands og tekur þátt í lokakeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu. Eiður Smári var valinn í leikmannahóp íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem tekur þátt í stórmóti í fyrsta skipti þegar liðið mætir Portúgal þriðjudaginn 14. júní.

„Ég er himinlifandi að vera í hópnum og það er frábært að uppskera á þennan hátt eftir 20 ára feril með íslenska landsliðinu. Ég er ekki að fara bara til þess að vera farþegi með liðinu og mun gera allt sem ég get til þess að hjálpa liðinu. Vonandi mun ég spila og hafa jákvæð áhrif á liðið,“ sagði Eiður Smári í samtali við Daily Mail. 

„Það voru fremur skrýtnar aðstæður þegar samningur minn rann út í Kína í janúar á þessu ári. Ég var ekki viss um að ég vildi halda kyrru fyrir í Kína og mig langaði að finna félag þar sem ég væri viss um að ég fengi spiltíma og væri nærri heimahögunum. Ég vildi vera í félagi þar sem landsliðsþjálfararnir ættu hægar um vik að fylgjast með mér,“ sagði Eiður Smári um stöðu mála í byrjun ársins 2016.

„Eftir að hafa rætt við Ole Gunner Solskjaer, knattspyrnustjóra Molde, í febrúar virtist félagið henta mér fullkomlega. Þetta er gott félag og aðstæður eru góðar hjá félaginu. Ég er virkilega ánægður hér hjá Molde. Hér get ég haft fulla einbeitingu á knattspyrnunni og það er þægilegt í aðdraganda Evrópumótsins,“ sagði Eiður Smári um veru sína hjá Molde. 

<h3>Gott gengi strákanna var spark í rassinn</h3>

Eiður Smári var ekki í íslenska liðinu í upphafi undankeppninnar fyrir Evrópumótið sem fram fer í sumar. Ísland fór vel af stað í undankeppninni með sigrum gegn Tyrklandi, Lettlandi og Hollandi. 

<span>Eiður Smári skrifaði undir skammtímasamning við Bolton Wanderers og lék vel með liðinu. Góð frammistaða hans hjá </span><span>Bolton Wanderers  varð til þess að hann hlaut áfram náð fyrir augum íslensku landsliðsþjálfarana. </span><span>Eiður Smári skoraði eitt marka íslenska liðsins í endurkomu sinni þegar liðið lagði Kasakstan að velli, 3:0, í mars árið 2015. </span>

„Í upphafi undankeppninnar hugsaði ég, strákarnir gætu verið á leiðinni í lokakeppni Evrópumótsins og ég missi af því. Sú tilhugsun að geta farið með strákunum í lokakeppnina sparkaði í rassinn á mér og ég ákvað að koma mér í mitt besta mögulega form. Ég ákvað að láta á það reyna að komast í nægilega gott form til þess að brjóta mér leið inn í leikmannahópinn að nýju og vera fær um að leika með liðinu og koma liðinu að gagni,“ sagði Eiður Smári um þróun mála í undankeppninni. 

Eiður Smári er staðráðinn í að enda landsliðsferilinn á jákvæðum nótum og segir að liðið muni veita andstæðingum sínum í F-riðli Evrópumótsins, Portúgal, Ungverjalandi og Austurríki, verðuga keppni.

„Við erum eðlilega álitnir lakasta liðið í riðlinum. Þjóð með 320.000 íbúa mun ávallt mæta til leiks sem minna liðið þegar liðið etur kappi við fjölmennari þjóðir. Við höfum áður haft betur gegn þjóðum sem eru hærri skrifaðar í knattspyrnunni og ekkert sem segir að við getum ekki gert það á stóra sviðinu í lokakeppni Evrópumótsins,“ sagði Eiður Smári um möguleika Íslands á Evrópumótinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert