„Ég er pínu svekktur“

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnukappinn Eiður Smári Guðjohnsen veitti fjölda stúlkna eiginhandaráritun og stillti sér upp í myndatökur en fyrsta fótboltaskóla Barcelona fyrir stúlkur lauk í gær.

Eiður er búinn að vera á Íslandi síðan íslenska landsliðið lauk leik á Evrópumótinu í knattspyrnu, 3. júlí þegar Frakkar sigruðu Íslendinga í 8-liða úrslitum. Hann kvaðst vera búinn að ná sér niður eftir mótið, þó minningarnar lifi alla ævi.

„Auðvitað lít ég til baka og hugsa um hvað þetta var skemmtilegt og meiriháttar upplifun og allt það. Þetta munu alltaf verða skemmtilegar minningar og ég held að maður muni alltaf fara á pínu flug þegar maður hugsar til baka. Heilt yfir er ég alveg búinn að ná mér niður,“ sagði Eiður í samtali við Morgunblaðið í gær.

Eiður kom einungis við sögu í tveimur leikjum en alls lék Ísland fimm leiki á mótinu.Leikmenn töluðu oft um það eftir leiki að Eiður hefði átt síðasta orðið í búningsklefanum fyrir leiki og stappað stálinu í leikmenn; róað taugar óreyndari leikmanna og fleira í þeim dúr. Sjálfur kveðst Eiður hafa farið út einungis með það í huga að spila knattspyrnu og hefði verið til í að koma meira við sögu.

„Ég fór út sem leikmaður og er ennþá leikmaður. Síðan reynir maður bara að gefa af sér eins mikið og maður getur, hvort sem það er innan eða utan vallar. Ég lýg því ekkert þegar ég segi að ég sé pínu svekktur yfir því hversu lítið ég spilaði. Það er oft erfitt að sitja á bekknum en svona er þetta bara,“ sagði Eiður og bætti við að það væri ekkert auðveldara að vera á meðal varamanna þótt gengi liðsins væri gott. „Ekkert þannig. Jú, af því að þá er hægt að samgleðjast og taka þátt í því að fagna sigrum. Það er strax skárra að fagna með liðinu heldur en að takast á við tap og leiðindi. Heilt yfir er alltaf erfitt að sitja á bekknum,“ sagði Eiður en hann kom inn á sem varamaður í leikjunum gegn Ungverjalandi og Frakklandi.

Sjá allt viðtalið við Eið Smára í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert