Gerir Rúnar Már KR-ingum skráveifu?

Rúnar Már Sigurjónsson
Rúnar Már Sigurjónsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

KR-ingar verða í eldlínunni í Evrópudeildinni í knattspyrnu í kvöld en þeir taka á móti svissneska liðinu Grasshoppers í 2. umferð keppninnar.

Svo skemmtilega vill til að í liði Grasshoppers er landsliðsmaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson sem í síðustu viku yfirgaf sænska liðið Sundsvall og skrifaði undir þriggja ára samning við svissneska liðið.

„Ég er bara spenntur og það verður vonandi gaman að spila fyrsta alvöru leikinn með liðinu á móti KR á Íslandi fyrir framan vini og fjölskyldu,“ sagði Rúnar Már í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann var þá nýkominn til landsins frá Svíþjóð þar sem hann var að ganga frá sínum málum.

Rúnar Már er rétt búinn að stimpla sig inn hjá Grasshoppers en eftir að hafa verið með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Frakklandi gekk hann frá samningi við liðið. Um síðustu helgi lék hann sinn fyrsta leik með liðinu en hann spilaði í 70 mínútur í æfingaleik á móti Aarau og skoraði seinna mark liðsins í 2:2 jafntefli.

„Ég náði tveimur æfingum og spilaði svo þennan æfingaleik. Eftir hann fór ég til Svíþjóðar til að pakka og kom þaðan til Íslands. Líkurnar á að ég byrji inná eru kannski minni þar sem ég þurfti að fara til Svíþjóðar en ég verð klár ef kallið kemur. Ég er í góðu formi og er klár í slaginn,“ sagði Rúnar Már.

Um möguleikana á að slá KR-ingana út úr keppninni sagði Rúnar Már:

„Það er auðvitað markmiðið að komast áfram og ég held að það megi segja að við séum sigurstranglegra liðið í þessu einvígi. Við þurfum því að ná í góð úrslit á KR-vellinum. Ég er búinn að sjá eitthvað af leikjum KR í sumar og hef séð hvernig liðið spilar. Þó svo að KR-ingum hafi ekki gengið sem skyldi í deildinni þá náðu þeir góðum úrslitum í Evrópukeppninni. Það er oft auðveldara að gíra sig upp í Evrópuleiki og ég trúi ekki öðru en að KR-ingarnir mæti mjög grimmir til leiks,“ sagði Rúnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert