Andlega búinn eftir mótið

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

,,Maður er í raun búinn að vera ofan í helli frá því Evrópumótinu lauk. Ég var andlega búinn eftir mótið en maður fórnar því alveg fyrir þessa velgengni,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, við Morgunblaðið í gær.

Aron Einar er þessa dagana að hlaða batteríin eftir ævintýri landsliðsins á Evrópumótinu í Frakklandi þar sem Ísland sló algjörlega í gegn, ekki bara Aron og samherjar hans í landsliðinu heldur íslensku stuðningsmennirnir. Aron skrapp í nokkurra daga frí til Bandaríkjanna en er kominn aftur heim til Íslands og í gær skellti hann sér á NASA ásamt eiginkonu sinni, á útgáfutónleika Emmsé Gauta.

,,Skrokkurinn er allt í lagi. Það eru pústrar hingað og þangað en ekkert alvarlegt,“ sagði Aron Einar, sem heldur til Cardiff á mánudaginn þar hann tekur þátt í undirbúningstímabilinu með liði sínu.

,,Maður byrjar bara rólega og reynir að koma sér hægt og bítandi í gírinn. Þetta er vinna manns og maður má ekki slappa af of lengi,“ segir Aron Einar.

Ekki er þó hægt að slá því föstu að landsliðsfyrirliðinn verði áfram í herbúðum Cardiff City þó svo að hann eigi tvö ár eftir af samningi sínum. Áhugi annarra liða á Aroni Einar hefur verið töluverður eftir góða frammistöðu hans með landsliðinu á Evrópumótinu. Aron lék alla fimm leiki liðsins og eftir að hafa átt við meiðsli að stríða í aðdraganda mótsins spilaði hann sig hægt og bítandi í form á Evrópumótinu og var íslenska liðinu gríðarlega mikilvægur.

,,Það hafa borist einhver tilboð frá liðum á Englandi og utan þess en ég er ekkert að stressa mig á því. Ég ætla ekkert að hoppa á fyrsta boð en þetta kemur til með að skýrast á næstunni,“ sagði Aron Einar.

Sjá allt viðtalið við Aron Einar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert