Sóknarmaður FH, Atli Guðnason, verður frá keppni í tvær til þrjár vikur en hann rifbeinsbrotnaði í leik gegn ÍBV í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í gær.
Atli var fluttur með sjúkrabíl af Hásteinsvelli en hann virtist lenda illa eftir að hafa verið tæklaður á lokamínútu leiksins.
„Ég er rifbeinsbrotinn,“ sagði Atli í samtali við mbl.is nú í hádeginu. Hann vonast til að verða ekki lengur frá keppni en tvær vikur.
Fjarvera Atla er mikið áfall fyrir FH en liðið á fyrir höndum stórleik gegn Dundalk í forkeppni Meistaradeildarinnar á miðvikudag, mætir ÍBV í undanúrslitum bikarsins fyrir mánaðamótin og er í mikilli baráttu á toppi Pepsi-deildarinnar.