Fylkir og Valur gerðu 2.2-jafntefli í 14. umferð Pepsi-deildar karla og það eru úrslit sem gleðja hvorugt liðið. Valsmenn eru í fimmta sæti deildarinnar en Fylkir situr áfram í 11. sæti.
„Ég var hundfúll að vera undir í hálfleik. Við fengum besta færið, þrátt fyrir að þeir væru meira með boltann, og við vorum klaufar að fara inn marki undir,“ sagði Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis, eftir leik.
„Þetta var samt frábær karakter. Að lenda tvisvar undir er erfitt og það er ekkert sjálfgefið að koma til baka, þannig að það var frábært hjá liðinu.“
Tveir dómar féllu gegn Fylki í leiknum, þar sem dæmd var rangstaða á ögurstundu. Albert Brynjar Ingason slapp einn í gegnum vörn Vals í fyrri hálfleik og Garðar Jóhannesson skoraði í seinni hálfleik.
„Ég ætla rétt að vona að þetta sé rangstaða. Annars er það ekki í fyrsta skipti sem okkur er refsað fyrir eitthvað sem er bara dómaramistök. Við höfum bara alls ekki efni á því að dómararnir standi sig ekki.
Það eru ennþá 24 stig í pottinum. Við erum búnir að taka tvö stig á móti þremur sterkum liðum en hefðum getað tekið níu. Það er þetta „ef og hefði“. Við þurfum bara að vera örlítið gráðugri í teignum því boltinn er að detta fyrir okkur og við þurfum bara að troða honum í netið,“ sagði Hermann að lokum.