Sigurður sá til þess að Valur varði titilinn

Valur varð í dag bikarmeistari í knattspyrnu karla eftir 2:0 sigur liðsins gegn ÍBV á Laugardalsvellinum í dag. Þetta er í sjöunda skipti í röð sem Valur ber sigur úr býtum í bikarúrslitaleik og nú hefur Valur ellefu sinnum orðið bikarmeistari, næst oftast allra liða. Val vantar nú þrjá bikarmeistaratitla til þess að jafna KR sem sigursælasta lið bikarkeppninnar.

Valur hóf leikinn af miklum krafti og þá einkum og sér í lagi Sigurður Egill Lárusson. Eftir 20 mínútna leik voru Valsmenn komnir tveimur mörkum yfir og Sigurður Egill skoraði bæði mörk liðsins. Fyrra mark Sigurðar Egils var afar glæsilegt, en hann fékk sendingu frá Kristian Gaarde og sneri laglega á Jonathan Barden með móttöku sinni. Sigurður Egill lék svo á Derby Carrillo, markvörð ÍBV og skoraði í autt markið.

Sigurður Egill var svo aftur á ferðinni á 20. mínútu leiksins þegar hann tvöfaldaði forystu Vals með öðru marki sínu í leiknum. Andri Adolphsson sendi þá sendingu upp vinstri vænginn á Kristin Inga Halldórsson sem komst nokkuð auðveldlega framhjá Jonathan Barden með hraða sínum. Kristinn Ingi lagði boltann síðan út á Sigurð Egil sem skoraði með föstu og hnitmiðuðu skoti af vítapunktinum um það bil í vinstra hornið frá honum séð.

Til þess að bæta gráu ofan á svart fyrir Eyjamenn hafði Avni Pepa, fyrirliði liðsins, farið meiddur á 11. mínútu leiksins. Avni Pepa var tæpur fyrir leikinn og hann entist einungis í rúmar tíu mínútur í þessum leik. Gunnar Heiðar Þorvaldsson fékk besta færi Eyjamanna í fyrri hálfleik, en skalli hans fór rétt framhjá marki Vals. Anton Ari Einarsson, markvörður Vals, gerði færi Gunnars Heiðars hættulegra en efni stóðu til með mislukkuðu úthlaupi sínu. Það var Antoni Ara hins vegar til happs að skalli Gunnars Heiðars fór hárfínt framhjá marki Vals.

ÍBV tókst ekki að koma sér inn í leikinn í seinni hálfleik og niðurstaðan varð öruggur tveggja marka sigur Vals sem varði þar af leiðandi bikarmeistaratitil sinn. Góð byrjun Valsliðsins varð til þess að leikurinn náði aldrei að verða spennandi. Eyjamenn fara því tómhentir til Vestmannaeyja, en kvennalið félagsins tapaði fyrir Breiðabliki í bikarúrslitum í gærkvöldi.   

Valur 2:0 ÍBV opna loka
90. mín. Elvar Ingi Vignisson (ÍBV) á skot sem er varið Elvar Ingi Vignisson sleppur í gegnum vörn Vals, en Anton Ari Einarsson ver skot hans í þröngu færi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert