Stjarnan er með fimm stiga forskot á toppi Pepsi-deildar kvenna. Garðbæingar unnu 2:1 sigur á ÍBV þegar liðin mættust á Samsung vellinum í 13. umferð deildarinnar í kvöld og eru nú með pálmann í höndunum að landa Íslandsmeistaratitlinum.
ÍBV tapaði bikarúrslitaleik fyrir skömmu síðan og eflaust hafa margir haldið að Eyjakonur myndu klára tímabilið í hægagangi eftir þann leik. ÍBV afsannaði það strax í næsta leik eftir bikarúrslitin, þegar liðið vann Val á útivelli og þær sýndu á Samsung vellinum í kvöld að þær eru hvergi nærri hættar.
Fyrsta markið kom á 15. mínútu þegar Cloe Lacasse spændi sig framhjá allri vörn Stjörnunnar og renndi boltanum framhjá Berglindi í markinu. Lacasse hóf sprettinn á eigin vallarhelmingi og varnarmenn Stjörnunnar náðu ekki að stöðva hana á sprettinum.
Blaðamenn í stúkunni töluðu um að Stjarnan ætti þó alltaf markið hennar Hörpu inni og það gekk eftir á 31. mínútu. Þá fékk markadrottningin háa sendingu inn í teiginn, þar sem hún vann skallaeinvígi. Boltinn datt fyrir fætur Hörpu sem skoraði með þrumuskoti í bláhornið, gjörsamlega óverjandi.
Ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik og staðan því 1:1 að loknum 45 mínútum.
Seinni hálfleikur var daufur lengstum og lítið um færi. Sigurmark leiksins kom á 82. Mínútu og það var af dýrari gerðinni. Orkuboltinn Ana Victoria Cate vann knöttinn af miklu harðfylgi á hægri kantinum og sendi frábæra sendingu inn á teiginn þar sem Donna Key Henry beið.
Henry tók fagmannlega á móti boltanum, lagði hann fyrir sig og skoraði sigurmarkið með þrumuskoti. Virkilega vel gert hjá báðum leikmönnum.
ÍBV náði ekki að jafna metin og Stjarnan landaði mikilvægum sigri en Stjörnuliðið hefur nú fimm stiga forystu á toppi deildarinnar þegar fimm leikir eru eftir.