Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, tilkynnti leikmannahóp íslenska liðsins sem mætir Slóveníu og Skotlandi í undankeppni EM 2017 um miðjan september á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag.
Ísland mætir Slóveníu 16. september og Skotlandi 20. september, en báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvellinum. Ísland vann öruggan 6:0 sigur þegar liðin mættust á Sportni Park Lendava í Lendava í Slóveníu í fyrr leik liðanna í undankeppninni 26. október á síðasta ári.
Harpa Þorsteinsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir skoruðu tvö mörk hvor í leiknum í Slóveníu og Margrét Lára Viðarsdóttir og Sandra María Jessen skoruðu sitt markið hvor.
Harpa sem er markahæsti leikmaður undankeppninnar með tíu mörk er ekki í leikmannahópi íslenska liðsins að þessu sinni þar sem hún er barnshafandi. Dóra María Lárusdóttir kemur inn í leikmannahópinn í stað Hörpu. Þá dettur Andrea Rán Hauksdóttir út úr leikmannahópnum og Rakel Hönnudóttur kemur í hennar stað.
Ísland er í efsta sæti riðilsins og þarf eitt stig í viðbót úr þessum tveimur leikjum til þess að tryggja sæti sitt í lokakeppni EM. Ísland er með jafn mörg stig og Skotland og íslenska liðið er sæti ofar þar sem liðið vann viðureign liðanna í Skotlandi í vor, 4:0.
Leikmannahópur íslenska liðsins er þannig skipaður:
Markmenn:
Guðbjörg Gunnarsdóttir
Sandra Sigurðardóttir
Sonný Lára Þráinsdóttir
Varnarmenn:
Anna Björk Kristjánsdóttir
Glódís Perla Viggósdóttir
Hallbera Guðný Gísladóttir
Elísa Viðarsdóttir
Sif Atladóttir
Málfríður Erna Sigurðardóttir
Miðjumenn:
Fanndís Friðriksdóttir
Sara Björk Gunnarsdóttir
Rakel Hönnudóttir
Sandra María Jessen
Dagný Brynjarsdóttir
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir
Elín Metta Jensen
Sóknarmenn:
Margrét Lára Viðarsdóttir
Hólmfríður Magnúsdóttir
Berglind Björg Þorvaldsdóttir
Dóra María Lárusdóttir