Harpa Þorsteinsdóttir, framherji Stjörnunnar, hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu og meðal annars gagnrýnd af mótherjum fyrir að spila ólétt, en Harpa er komin 13 vikur á leið.
Sjá: Kemur Hörpu til varnar - „Óskiljanlegt“
„Það er 100% óhætt að spila. Ég er búin að kynna mér þetta vel og fóstrið er enn vel varið,“ sagði Harpa við Rúv, en hún skoraði til að mynda tvö mörk í sigri Stjörnunnar á ÍA í gær. Hún hefur meðal annars verið sökuð um að koma öðrum leikmönnum deildarinnar í óeðlilega stöðu.
„Ég veit um mörg dæmi þess að konur hafi spilað lengur í fótbolta og alls kyns greinum, jafnvel fram á 20. viku, og ég hef ekki verið tekin léttari tökum eftir að fólk vissi að ég væri ólétt. En það er gott að taka umræðuna, fullt af stelpum eiga eftir að vera í þessum sporum. Það er lykilatriði að fólk sé ekki að tala um hluti sem það hefur ekki kynnt sér. Ég er ekki að taka neina áhættu,“ segir Harpa við Rúv.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, kom Hörpu til varnar fyrr í dag eins og lesa má um HÉR.