„Heldur fólk yfir höfuð almennt að Harpa Þorsteins sé að reyna svindla á mótherjum eða stofna barni sínu í hættu með því að spila knattspyrnu á þessu stigi?“
Svona hefst pistill Ásgerðar Stefaníu Baldursdóttur, fyrirliða Stjörnunnar í knattspyrnu, sem gagnrýnir mjög ummæli sem fallið hafa í garð Hörpu Þorsteinsdóttur, framherja liðsins, eftir að opinbert var að hún sé ólétt. Harpa er enn að spila og skoraði meðal annars tvö mörk í gærkvöldi.
„Að koma fram í fjölmiðlum eða á samskiptamiðlum að efast um dómgreind Hörpu og þeirra lækna sem hún hefur hitt er mér gjörsamlega óskiljanlegt,“ skrifar Ásgerður á Facebook, og vísar þar í ummæli Þorsteins Halldórssonar þjálfara Blika um að Harpa sé að koma öðrum leikmönnum deildarinnar í óeðlilega stöðu.
„Ef það væri eitthver sáralítill möguleiki á að eitthvað gæti gerst sem myndi skaða fóstrið haldið þið að 30 ára gömul móðir myndi taka þá áhættu? Aldrei!! Ég veit það og get fullvissað ykkur snillingana sem hafið tjáð skoðun ykkar á þessu að Harpa Þorsteinsdóttir myndi ALDREI taka þá áhættu,“ skrifar Ásgerður ennfremur og endar pistilinn á hugleiðingu til lesenda.
„Mig langar að varpa einni spurning í lokin, Hvernig haldið þið að verðandi móður líði með að lesa þessu ummæli? Staldrið við og hugsið þetta.“