Skagamenn sigruðu Blika

Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Garðar Gunnlaugsson í baráttu um boltann.
Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Garðar Gunnlaugsson í baráttu um boltann. mb.is/Ófeigur

ÍA sigraði Breiðablik, 1:0, í 21. umferð Pepsi-deildar karla á Akranesi í dag. Skagamenn eru eftir leikinn með 31 stig í 7. sæti en Blikar eru í 3. sæti með 35 stig.

Fyrri hálfleikur liðanna var ansi jafn þótt Blikar hafi verið meira með boltann. Sóknir ÍA voru einfaldari, með sendingar í átt að Garðari Gunnlaugssyni.

Árni Vilhjálmsson, framherji Breiðabliks, fékk tvö frábær færi eftir undirbúning Andra Rafns Yeomans en í bæði skiptin varði Árni Snær vel frá honum. Besta færi Skagamanna í fyrri hálfleik fékk Tryggvi Hrafn Haraldsson en skalli hans af stuttu færi heppnaðist skelfilega. Sennilega hefur vindurinn haft einhver áhrif á ferð knattarins.

Þá átti Oliver Sigurjónsson frábæra tilraun úr aukaspyrnu en boltinn í slánna og niður á marlínuna og út. Grunur leikur á um að boltinn hafi lent fyrir innan marklínuna en leikmenn Breiðabliks kvörtuðu þó lítið yfir ákvörðun dómarans að dæma ekki mark.

Seinni hálfleikur var svipaður þeim fyrri. Blikar voru meira með boltann og sköpuðu sér nokkur færi. Það voru hins vegar Skagamenn sem settu mark á leikinn. Var þar á ferðinni Guðmundur Böðvar með þrumuskoti úr teignum eftir hornspyrnu. Hornspyrnan kom einmitt upp úr sókn sem hann bjó til með frábærri stungusendingu.

Blikar reyndu að sækja en Árni Snær markvörður ÍA átti góðan leik og greip inn í þegar þurfti. Skagamenn voru nálægt því að skora annað mark en skot Stefáns Teits fór í slánna og út. Leiknum lauk með sigri ÍA. Leikurinn var jafn þótt Blikar væru meira með boltann en Blikar geta nagað sig í handabökin eftir að hafa átt nokkur góð færi í fyrri hálfleik.

ÍA 1:0 Breiðablik opna loka
90. mín. Jonathan Glenn (Breiðablik) fær hornspyrnu Glenn fær hornspyrnu frá vinstri hér.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert