„Búin að hugsa um þetta á hverjum degi“

Lára Kristín Pedersen á góðri stundu.
Lára Kristín Pedersen á góðri stundu. mbl.is/Golli

Lára Kristín Pedersen, miðjumaður Stjörnunnar, var í hálfgerðu áfalli þegar mbl.is tók hana tali eftir að Stjarnan tryggði sér sinn fjórða Íslandsmeistaratitil í kvennaflokki þegar liðið lagði FH, 4:0, í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í dag.

Sjá frétt mbl.is: Stjarnan Íslandsmeistari í fjórða sinn

„Ég veit eiginlega ekki alveg hvernig ég á að lýsa þessu. Við erum búnar að stefna að þessu síðan í nóvember. Ég er búinn að hugsa um þetta á hverjum degi síðan þá og er eiginlega bara ekki að átta mig á þessu,“ sagði Lára Kristín. Hún segir titillinn enn sætari eftir að hafa misst af honum í fyrra.

„Alveg klárlega, og þess vegna held ég að við höfum allar fengið þetta alveg á heilann – að ná að klára þetta. Það eru allir svo miklir sigurvegarar í þessu liði og það kom ekki neitt annað til greina en að klára þetta,“ sagði Lára og gerði mikið úr liðsheildinni í Garðabænum.

„Mér finnst andrúmsloftið innan Stjörnunnar svo mikilvægt. Við erum allar svo miklir sigurvegarar. Það hefur gengið mikið á þetta tímabilið en við höldum alltaf áfram,“ sagði Lára, sem sjálf var á markaskónum í dag.

„Ég er ekki þekkt fyrir markaskorun, svo þetta var mjög sætt,“ sagði Lára og það stóð ekki á svari þegar blaðamaður spurði hvort ætti ekki að fagna fram á rauða nótt.

„Það er eiginlega bara svoleiðis. Svo er lokahófið á morgun, vonandi taka strákarnir sinn leik og við getum öll fagnað saman,“ sagði Lára Kristín Pedersen að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert