„Ég er alveg gríðarlega stolt“

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir fyrirliði Stjörnunnar fagnar í leikslok.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir fyrirliði Stjörnunnar fagnar í leikslok. mbl.is/Eggert

„Mér finnst þessi titill og sá fyrsti 2011 vera í sérflokki,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir að hafa skömmu áður lyft Íslandsmeistarabikarnum eftir 4:0 sigur á FH í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu. Þetta var fjórði titill félagsins á síðustu sex árum.

Sjá frétt mbl.is: Stjarn­an Íslands­meist­ari í fjórða sinn

„Í ár er mótið eitt það sterkasta sem ég hef spilað og svo misstum við marga leikmenn fyrir tímabilið og á tímabilinu. Það er ótrúlegt að standa hér og lyfta bikarnum fyrir framan fulla stúku af Garðbæingum. Ég er alveg gríðarlega stolt,“ sagði Ásgerður og það stóð ekki á svari þegar blaðamaður spurði hvernig væri að vera fyrirliði svona liðs.

„Það er eiginlega magnað og ég er ótrúlega stolt af því að hafa verið fyrirliði liðsins núna í fjögur ár. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hvernig þetta er fyrr en maður kemur inn í liðið. Það eru ótrúlegir karakterar hér og liðsheildin er þvílík. Það skiptir engu hvað gerist, það stígur alltaf einhver upp og það er mögnuð tilfinning,“ sagði Ásgerður.

„Ég trompa hann alltaf“

Hún lætur ávallt finna vel fyrir sér á miðjunni og skoraði eitt af fjórum mörkum liðsins í dag. Það var hennar fyrsta og eina mark í sumar – var hún að spara þetta fram í lokaleikinn?

„Ég skoraði átta mörk í fyrra og var næstmarkahæst á eftir Hörpu. Reyndar 25 mörkum á eftir henni samt,“ sagði Ásgerður og skellti upp úr. „Ég er búin að fá nokkur dauðafæri í sumar og fékk örugglega einhver fjögur dauðafæri í dag. Að hafa skorað eitt er nóg fyrir mig,“ sagði Ásgerður.

Unnusti Ásgerðar er knattspyrnumaðurinn Almarr Ormarsson, sem vann 1. deildina með KA fyrr í mánuðinum. Verður einhver metingur á heimilinu um titla?

„Það er ekki hægt að metast um þetta, ég trompa hann alltaf. Hann hefur aldrei orðið Íslandsmeistari og þó ég sé mjög stolt af því sem hann gerði þá er ekki hægt að metast um þetta. Hann fær alveg að vita af því,“ sagði Ásgerður Stefanía og hló í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert