Harpa Þorsteinsdóttir, framherji nýkrýndra Íslandsmeistara Stjörnunnar í knattspyrnu, fékk nú rétt í þessu afhenta viðurkenningu sem besti leikmaður Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu árið 2016. Hún var jafnframt markahæsti leikmaður deildarinnar og var líka verðlaunuð fyrir það.
Útnefningin var kunngjörð að loknum leik Stjörnunnar og FH í síðustu umferð deildarinnar í Garðabæ, þar sem Íslandsmeistarabikarinn fór á loft. Venjan hefur verið að afhenda verðlaunin á lokahófi KSÍ. Í fyrra var það gert á uppskeruhátíðum félaganna en nú er það gert í leikslok í síðustu umferðinni. Það eru leikmenn liðanna í deildinni sem greiða atkvæði í kosningunni.
Þá var Harpa jafnframt markahæsti leikmaður deildarinnar, þrátt fyrir að hafa ekki komið við sögu í síðustu tveimur leikjum Stjörnunnar þar sem hún er barnshafandi. Harpa skoraði alls tuttugu mörk í sextán leikjum með Stjörnunni í sumar.
Þetta er í þriðja sinn á síðustu fjórum árum sem Harpa vinnur tvöfalt, sem bæði markahæsti leikmaður deildarinnar og sú besta. Hún var einnig hlutskörpust árin 2013 og 2014 þegar Stjarnan varð Íslandsmeistari í annað og þriðja sinn. Árið 2013 skoraði hún 28 mörk og svo 27 mörk árið 2014 og lék þá alla leiki Stjörnunnar.
Markahæstar í deildinni 2016:
20 - Harpa Þorsteinsdóttir, Stjörnunni
14 - Margrét Lára Viðarsdóttir, Val
13 - Cloe Lacasse, ÍBV
12 - Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Fylki og Breiðabliki
12 - Stephany Mayor, Þór/KA
Cloe Lacasse rændi bronsskónum af Berglindi Björgu á lokamínútunum í Eyjum í dag þegar hún skoraði tvívegis gegn Þór/KA.