„Ég er orðinn góður af meiðslunum og spila á laugardaginn,“ sagði landsliðsmaðurinn Kári Árnason, leikmaður sænska liðsins Malmö, í samtali við Morgunblaðið í gær. Kári fór meiddur af velli í leiknum á móti Elfsborg á dögunum og missti af leik sinna manna á móti um síðustu helgi en hann verður á sínum stað í hjarta varnarinnar á morgun þegar Malmö sækir Häcken heim.
„Ég fékk í nárann. Ég hélt í fyrstu að ég hefði tognað en líklega hefur þetta verið einhver krampi sem ég fékk og ég er orðinn leikfær á ný sem er mjög ánægjulegt,“ sagði Kári.
Þegar fimm umferðum er ólokið af sænsku deildinni er Malmö í mikilli baráttu við ríkjandi meistara Norrköping um meistaratitilinn. Malmö er stigi á undan en liðin eigast við á heimavelli Norrköping í fyrsta leiknum eftir landsleikjahlé og sá leikur gæti ráðið miklu um það hvort liðið verður meistari.
,,Það er smá vandræðagangur hjá okkur. Við höfum misst marga leikmenn í meiðsli upp á síðkastið og þetta gæti orðið þungur róður en ég held samt að við séum alveg með nógu breiðan hóp til að klára þetta. Lykilleikurinn verður leikurinn á móti Norrköping og hann verður bara að vinnast. Ég sé ekki annað í stöðunni en þetta verði slagur á milli okkar og Norrköping um titilinn. Mér sýnist að Norrköping eigi heldur erfiðara leikjaprógramm heldur en við. Þar með er ég ekki að segja að okkar bíði auðveldir leikir,“ sagði Kári sem er á sínu öðru ári hjá Malmö.
Viðtalið við Kára má sjá í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.