Lillý Rut Hlynsdóttir, varnarmaðurinn öflugi í liði Þórs/KA, var rétt í þessu útnefnd efnilegasti leikmaðurinn í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu á keppnistímabilinu 2016.
Hún fékk viðurkenningu fyrir það strax að loknum leik ÍBV og Þórs/KA í Vestmannaeyjum í dag.
Lillý er 19 ára gömul og hefur verið í stóru hlutverki í Akureyrarliðinu undanfarin ár. Hún spilaði alla 18 leiki þess í deildinni á þessu tímabili og hefur þrátt fyrir ungan aldur þegar leikið 79 leiki með Þór/KA í úrvalsdeildinni. Þá hefur hún verið fastamaður í yngri landsliðunum og á samtals 34 leiki að baki fyrir Íslands hönd í U19 og U17 ára liðunum.