Þetta gerist ekki betra

Ólafur Þór Guðbjörnsson.
Ólafur Þór Guðbjörnsson. mbl.is/Eva Björk

Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari nýkrýndra Íslandsmeistara Stjörnunnar, var að vonum sáttur þegar mbl.is tók hann tali eftir 4:0 sigur liðsins í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í dag. Hann segir það alltaf jafn sætt að taka titilinn.

„Engin spurning; á þessum velli, í þessu veðri og með þessa frábæru áhorfendur. Það gerist ekki betra,“ sagði Ólafur og er ánægður með hvernig liðið hefur tekist á við tímabilið.

Sjá frétt mbl.is: Stjarn­an Íslands­meist­ari í fjórða sinn

„Þetta hefur kannski verið pínu rússíbani í sumar, ekki stigalega séð þó þar sem við höfum verið á toppnum nánast í allt sumar nema í eina eða tvær umferðir. En það sem hefur komið upp á hefur verið svolítill rússíbani, en bara eitthvað sem við höfum þurft að takast á við. Hópurinn hefur staðið sig frábærlega í því,“ sagði Ólafur.

Hann stýrði Stjörnuliðinu til Íslandsmeistaratitils 2014, en í fyrra þurfti liðið að láta sér annað sætið að góðu. Það átti ekki að sætta sig við það lengi.

„Það kom ekkert annað til greina þegar við töpuðum titlinum í fyrra en að fá hann hingað aftur og við ætluðum okkur það. Það hefur verið mikið lagt á sig til þess og virkilega ánægjulegt að uppskera svona,“ sagði Ólafur og segir frekari uppbyggingu framundan.

„Við erum að sjá ungar stelpur úr Stjörnunni að koma inn á og standa sig vel. Hópurinn er flottur og nú er bara að halda áfram, það er ekkert annað í stöðunni,“ sagði Ólafur Þór Guðbjörnsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert