„Mér fannst við eiga þetta skilið. Þetta sýnir að við gefumst aldrei upp,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, eftir 3:2-sigurinn á Finnlandi í undankeppni HM í kvöld.
„Við áttum mörg skottækifæri, mikið af fyrirgjöfum og getum verið sáttir með það. Spilamennskan var betri en á móti Úkraínu. Þeir gerðu okkur sannarlega erfitt fyrir, þéttu miðjusvæðið og við þurftum að færa boltann hraðar. Það gekk betur í seinni hálfleik og þess vegna sköpuðum við okkur svona mörg færi. Markvörðurinn þeirra átti góðan leik og var þeirra besti maður,“ sagði Aron.
„Þetta er gríðarlega mikilvægur sigur upp á framhaldið að gera, og að halda heimavellinum okkar góðum. Við höldum áfram að sanka að okkur stigum hér,“ bætti fyrirliðinn við.
Aron fékk gult spjald í leiknum og verður í leikbanni þegar Ísland mætir Tyrklandi á sunnudagskvöld. Óhætt er að segja að þar sé skarð fyrir skildi enda Aron verið nær ómetanlegur fyrir landsliðið:
„Ég er svekktur með sjálfan mig að hafa fengið þetta gula spjald en maður lærir af því. Við vorum bara hlæjandi þarna að ýta í hvorn annan. Þetta var bara djók en dómarinn tók því öðruvísi. Maður á ekki að vera svona vitlaus,“ sagði Aron. Hann segir skiljanlegt að Finnar hafi spilað eins og þeir gerðu, en þeir nýttu hvert tækifæri til að tefja leikinn:
„Þeir komu bara með sitt leikplan og það var að virka, þangað til á síðustu mínútunum,“ sagði Aron, og spurði svo blaðamann hvort boltinn hefði farið löglega inn fyrir marklínuna í sigurmarki Íslands. Sá sem þetta skrifar gat nú ekki sagt að svo hefði verið:
„Stundum þarftu þessa heppni og við fengum hana í dag. Ég er bara mjög sáttur með viljann og hugarfarið hjá strákunum. Mennirnir sem komu inná, og bara allir, vita hvað þeir eiga að gera. Það leggja allir sitt að mörkum,“ sagði Aron.