Fannst ég koma með orku í liðið

Viðar Örn Kjartansson á æfingu landsliðsins í vikunni.
Viðar Örn Kjartansson á æfingu landsliðsins í vikunni. mbl.is/Eggert

„Maður reynir að gera eins mikið og maður getur á þessu korteri sem maður fær. Mér fannst ég koma með smáorku og baráttu í þetta. Ekki að það hafi bara verið mér að þakka en „tempóið“ breyttist aðeins eftir þetta,“ sagði framherjinn Viðar Örn Kjartansson eftir 3:2-sigurinn á Finnlandi í undankeppni HM karla í knattspyrnu í kvöld.

Viðar kom inná sem varamaður fyrir Björn Bergmann Sigurðarson á 75. mínútu og tók þátt í þungri pressu Íslands á lokakafla leiksins, sem skilaði tveimur mörkum undir lokin. Viðar var svekktur yfir því að fá ekki að byrja leikinn, í fjarveru Kolbeins Sigþórssonar og Jóns Daða Böðvarssonar sem báðir voru meiddir.

Reiknaði með að byrja

„Ég reiknaði með að byrja, ég viðurkenni það alveg. Ég var svekktur að byrja ekki, og ég á líka að vera það. Ég er búinn að vera þolinmóður mjög lengi, að bíða eftir sæti í byrjunarliðinu í mótsleik, þannig að ég var mjög vonsvikinn. Vonandi náði ég að sýna eitthvað og fæ kannski séns á sunnudaginn. Það er svolítið öðruvísi að byrja leik en að fá að spila bara í korter,“ sagði Viðar, en Ísland mætir Tyrklandi á sunnudagskvöld. Sigurinn í kvöld ætti að veita íslenska liðinu meðbyr inn í þann leik:

„Það er frábært að vinna. Þetta var ekki góður leikur og Finnar voru góðir, eins og maður bjóst svo sem við. Við fundum ekki hvern annan og vorum ekkert rosalega góðir, en við náðum að rífa okkur aðeins upp í seinni hálfleik. Í lokin snerist þetta bara um hverjir vildu þetta meira og við vorum yfir í þeirri baráttu,“ sagði Viðar. Um sigurmark Íslands, sem Finnar eru æfir yfir að hafa fengið að standa, sagði Viðar:

Var viss um að boltinn væri inni

„Ég var mjög nálægt boltanum og sá hann inni. Þá byrjaði maður bara að fagna, en svo byrjuðu Finnarnir að halda því fram að þetta væri ekki mark. Það kom „smá-panikk“ í mann þá, ég var 100% á því að boltinn hefði farið inn en þegar dómararnir fara að ræða saman þá er oft skipt um skoðun. Sem betur fer gerði hann það ekki. Það var yndislegt að koma tilbaka og vinna leik sem við áttum ekki mikið skilið úr. Það er það sem góð lið gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert