„Fengum mikilvægustu ákvörðun leiksins“

Alfreð Finnbogason sækir að marki Finna.
Alfreð Finnbogason sækir að marki Finna. mbl.is/Golli

Alfreð Finnbogason, landsliðsmaður í knattspyrnu, var í skýjunum með 3:2 sigur Íslands á Finnlandi í undankeppni heimsmeistaramótsins á Laugardalsvelli í kvöld. Alfreð gerði tvö mörk í leiknum.

Þessi knái leikmaður Augsburg í Þýskalandi jafnaði metin þegar lítið var eftir af leiknum áður en hann skoraði svo umdeilt sigurmark í uppbótartíma.

„Það var nú ekki oft sem ég var ekki með þristinn í bakinu á mér. Ég hélt að hann væri klónaður í leiknum en ég náði honum aðeins af mér og Gylfi getur smurt honum þar sem hann vill, þannig maður treystir honum fyrir því. Ég ætla að claim-a þetta mark eins og alvöru markaskorari,“ sagði Alfreð við fjölmiðla.

„Ég hef ekki fylgst mikið með þeirra leikjum. Ef þetta hefði verið öfugt þá hefðum við auðvitað verið brjálaðir. Hvort þetta sé samsæri, ég held ekki. Dómarinn var slakur í báðar áttir í dag og sem betur fer fengum við mikilvægustu ákvörðun leiksins.“

„Mér heyrist allir vera að tala um það hvort boltinn hafi verið inni eða ekki. Ég ætlaði að tryggja það að boltinn færi á einhverjum tímapunkti yfir línuna. Þetta eru skemmtilegustu sigrarnir, þegar maður á ekkert endilega skilið að vinna, en við förum sáttir með þrjú stig og það skiptir mestu,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert