Fínn í loftinu og nýti mér það

Kári Árnason með einn af mörgum sköllum sínum gegn Finnum …
Kári Árnason með einn af mörgum sköllum sínum gegn Finnum í kvöld. mbl.is/Golli

„Þetta var svolítið mikið[...] en það er jákvætt að við skyldum koma tilbaka og vinna þennan leik. Það er það sem skiptir máli,“ sagði Kári Árnason, landsliðsmiðvörður, sem átti stóran þátt í sigri Íslands á Finnlandi, 3:2, í undankeppni HM í knattspyrnu í kvöld.

Kári hefur sýnt og sannað að hann er stórhættulegur í vítateig andstæðinganna og hann skoraði skallamark í kvöld, fiskaði víti með öðrum skalla og lagði svo upp sigurmarkið með skallasendingu á Ragnar Sigurðsson:

„Ég geri það sem ég get í sóknarleiknum. Ég nýti þann styrk að ég er fínn í loftinu, og ég veit hvar menn fara. Ég veit hvar Raggi er, og skallaði boltann bara í átt að svæðinu þar sem hann skoraði gegn Englendingum. Hann var mættur. Ég gerði það meira að segja í fyrri hálfleik líka. Hann hefði átt að skora tvö,“ sagði Kári léttur. Ísland fékk hins vegar tvö mörk á sig gegn Finnum á heimavelli, og það er óvanalegt:

Seinna mark þeirra kom eftir rangstöðu

„Við fáum klaufalegt mark á okkur. Þetta voru talningarmistök inni í teig hjá okkur, en hann kláraði færið mjög vel. Seinna markið hjá þeim kom eftir að þeirra maður hafði fengið boltann rangstæður. Út frá því barst boltinn yfir á hinn kantinn og sá skoraði eftir að við höfðumst varið fyrra skot hans. Stundum getur maður ekkert gert í mörkum, og þetta var eitt af þeim,“ sagði Kári, sem var spurður hvað honum hefði fundist um það að Finnar reyndu mikið að tefja leikinn:

„Auðvitað verður maður pirraður þegar maður er undir og liðin byrja að tefja, en við hefðum sennilega gert það sama. Þeir eru góðir og ég sagði það líka fyrir leikinn. Þetta eru góðir leikmenn sem spila hjá góðum liðum og eru vel skipulagðir,“ sagði Kári, þeim mun ánægðari með sigurinn: „Þeir voru að rífa kjaft allan leikinn þannig að það var mjög gaman [að ná sigrinum]. Auðvitað hefði maður frekar viljað halda hreinu og vinna 1:0 en við [varnarmennirnir] lögðum alla vega okkar að mörkum á hinum enda vallarins líka.

Margir fundir framundan

Næst á dagskrá er leikur við Tyrkland á sunnudagskvöld, einnig á Laugardalsvelli:

„Þetta verður erfiður leikur. Við höfum tvo daga til að ná okkur eftir þennan leik og þurfum að endurskoða ýmsa hluti. Þeir náðu okkur í skyndisóknum of auðveldlega. Við þurfum að vera vel skipulagðir til að taka við þeim, og skoða hvernig við ætlum að standa ­– hvort við ætlum að hápressa eða lágpressa og svo framvegis. Það er nóg af fundum framundan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert