„Gæti ekki verið meira sama hvað honum finnst“

Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var að vonum sáttur með 3:2 sigur liðsins á Finnlandi í undankeppni heimsmeistaramótsins í kvöld en leikið var á Laugardalsvelli.

Íslenska liðið vann ótrúlegan sigur á Finnum í kvöld en liðið skoraði tvö mörk undir lok leiksins sem reyndist dýrmætt. Alfreð Finnbogason jafnaði metin áður en hann gulltryggði sigurinn eftir klafs.

„Ég held að við verðum að telja okkur heppna að hafa fengið þrjú stig. Þetta var frekar erfiður leikur en við byrjuðum hann vel. Markið breytti öllu, þeir duttu niður og voru að verjast með marga menn eins og við bjuggumst við. Þetta tók sinn tíma,“ sagði Gylfi við mbl.is í kvöld.

„Það voru einfaldar feilsendingar hjá okkur sem leyfði þeim að fara í skyndisóknir á okkur sem teygði leikinn. Þetta var ekki okkar besti leikur en það sýnir styrk liðsins að við náðum einhvern veginn að vinna hann.“

Gylfi fékk fjölmörg færi sjálfur til þess að skora en þetta var bara ekki hans dagur fyrir framan markið. Hann vonast til að gleyma því sem fyrst.

„Ég skaut í slá í vítinu, svo stöng fyrir utan teig og nokkur önnur skot. Sem betur fer náðum við að vinna leikinn, vonandi gleymi ég þessu eftir nokkra daga.“

Björn Bergmann Sigurðarson kom inn í byrjunarliðið í fyrsta sinn. Þetta var hans fyrsti landsleikur síðan 2011 en Gylfi var ánægður með frammistöðuna hjá honum.

„Björn Bergmann var fínn. Auðvitað var erfitt fyrir hann og Alfreð að spila gegn þremur miðvörðum. Hann kom vel inn og vonandi verður hann betri í næsta leik.

Markvörður finnska landsliðsins ræddi um það í viðtali eftir leikinn að dómarastéttin væri með eitthvert samsæri gegn þeim. Hann vildi meina að boltinn hefði ekki farið yfir línuna í þriðja markinu en Gylfi gefur ekki mikið fyrir orð hans.

„Mér gæti ekki verið meira sama hvað honum finnst. Við förum heim með þrjú stig og þeir ekki neitt, það er það eina sem skiptir máli,“ sagði hann enn fremur.

„Mér fannst boltinn vera inni. Þetta gerist svo hratt, þetta var tæpt. Boltinn var nálægt línunni og ég hljóp burtu fagnandi og vonaðist eftir því að dómarinn myndi dæma mark, sem hann gerði. Vonandi hafði það áhrif,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert