„Þetta er ofboðslegur léttir,“ sagði Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari Íslands á blaðamannafundi að loknum leiknum gegn Finnlandi sem lauk með 3:2 sigri Íslands eftir ævintýralegar lokamínútur.
Heimir sagði að á þessum tímapunkti væri sér í raun sama um hvort sigurmarkið hafi verið löglegt eða ekki en Heimir var ekki í aðstöðu til að dæma um það. „Ég sá ekki almennilega hvað gerðist enda voru margir leikmenn að reyna að koma boltanum í markið. Mér er í raun sama. Mér finnst bara æðislegt að að við höfum náð að skora,“ sagði Heimir en benti á að hamagangurinn á lokamínútunum sýni seigluna í íslenska liðinu.
„Þetta virtist vera leikur þar sem allt var stöngin út hjá okkur. Þeir náðu auk þess yfirleitt lausum boltum og ekki oft sem Gylfi brennir af vítaspyrnu. En það sýnir seigluna hjá mínum mönnum að vinna leikinn. Frábært að sjá að þeir hætta aldrei og það er það sem er frábært við þennan leikmannahóp.“
Spurður um Björn Bergmann sagði Heimir hann vera eðlilegan valkost þegar Kolbeins og Jóns Daða nýtur ekki við. „Björn Bergmann hefur þá eiginleika sem Kolbeinn og Jón Daði hafa. Sterkur í loftinu og líkamlega sterkur. Við spilum oft upp í loftið og þá er gott að hafa þessa eiginleika. Auk þess er hann góður í fótbolta og hefur marga kosti. Ég held að allir hafi séð í leiknum hversu góður hann er í fótbolta. Hann er að komast í rólegheitum í sitt besta form. Auk þess má benda á að Alfreð og Viðar eru frekar svipaðir leikmenn.“
Slær því föstu að Hannes og Jón nái Tyrkjaleiknum
Íslenska liðið fær ekki oft á sig tvö mörk í leik núorðið og hvað þá á heimavelli.
„Mér fannst það vera ólíkt okkur hvernig við fáum á okkur mörkin. Bæði mörkin voru opin færi. Hann fær frían skalla í fyrra markinu. Þeir gerðu vel að teyma bakverðina okkar út og stungu sér inn í svæði. Við vorum svolítinn tíma að átta okkur á því. Þannig kom fyrsta markið. Í síðara markinu fær Finninn tvö tækifæri án þess að vera settur undir pressu. En það var ekkert vandamál varðandi agaleysi í varnarleiknum. Við spiluðum leikinn nokkuð vel,“ sagði Heimir og benti á að leikstíll Finna sé svipaður okkar. „Þessi leikur var allt öðruvísi vegna þess að Finnar spila svipað og við. Ókostir við velgengni er sú að menn leikgreina okkur betur og miklu meiri sigur að vinna Ísland en áður. Við þurfum að læra að tækla það. Þetta var lærdómur í dag.“
Heimir sagði að liðið hafi í síðari hálfleik viljað loka betur á hlaupaleiðirnar hjá Finnum.
„Við vildum reyna að loka á þessar hlaupaleiðir. Við vildum spila hraðar og komast upp kantana. Við breyttum í seinni hálfleik og létum þá Jóhann og Birki skipta um kant og þeim líður betur þegar Jói er hægra megin og Birkir vinstra megin. En varðandi lokakaflann þá fundu menn fyrst og fremst þegar leið á leikinn að eitthvað þurfti að gerast og þá urðu menn ákafari,“ sagði Heimir sem tefldi ekki fram Hannesi Þór Halldórssyni, Jón Daða Böðvarssyni og Emil Hallfreðssyni vegna meiðsla.
„„Við vildum ekki taka áhættu. Hannes og Jón gætu orðið klárir gegn Tyrkjum á sunnudag. Ég ætla bara nokkurn veginn að slá því föstu. Meiri spurning um hvort Emil verði klár í slaginn.“