Þetta verður vart mikið sætara

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, fagnar sigrinum …
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, fagnar sigrinum á Laugardalsvelli í gærkvöldi. mbl.is/Golli

Tilfinningin frá ævintýrinu á EM í Frakklandi í sumar hefur vafalaust gert vart við sig í brjóstum margra þeirra sem sáu íslenska landsliðið fagna hreint ótrúlegum sigri, 3:2, gegn Finnum í undankeppni HM í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í gærkvöld. Alltént gerði það hjá mér þegar Íslendingar skoruðu sigurmark leiksins á ögurstundu og náðu þar með að snúa töpuðum leik sér í vil.

Erfitt var að sjá hvort boltinn fór yfir marklínuna af Ragnari Sigurðssyni í uppbótartímanum eða hvort hann hafði handleikið boltann en norsku dómararnir dæmdu mark, takk fyrir það, og Laugardalsvöllurinn hreinlega sprakk þegar lokaflautið gall. Þrjú ákaflega dýrmæt stig í höfn en lengi vel hélt maður að þetta ætlaði ekki að verða kvöld okkar manna eins og leikurinn spilaðist.

Tólf leikir í röð án taps á Laugardalsvellinum segir meira en mörg orð um það hversu sterkt vígi heimavöllurinn er orðinn en ekki er hægt að segja annað en tæpt hafi staðið. Það stefndi hreinlega í fyrsta tap íslenska liðsins í Laugardalnum frá tapleiknum gegn Slóvenum í júní 2013 því þegar klukkan var að detta í 90 mínútur voru Finnar 2:1 yfir. 

Grein Guðmundar Hilmarssonar má lesa í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. Í blaðinu er ítarlega fjallað um viðureign Íslands og Finnlands í undankeppni HM í karlaflokki í knattspyrnu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert