lKnattspyrnudeild Fylkis skrifaði í dag undir nýja samninga við Albert Brynjar Ingason og Odd Inga Guðmundsson.
Í fréttatilkynningu frá Fylkismönnum kemur eftirfarandi fram:
Albert er uppalinn í Árbænum. Hann hefur spilað 160 leiki í deildar- og bikarkeppni fyrir Fylki og skorað í þeim 56 mörk. Hann er þrítugur sóknarmaður sem spilaði 7 yngri landsleiki á sínum tíma. Albert semur við Fylki til þriggja ára.
Oddur er eins og Albert, uppalinn Árbæingur. Hann hefur spilað 76 leiki í deildar- og bikarkeppni fyrir Fylki og skorað í þeim 8 mörk. Oddur sem er fæddur 1989 semur við Fylki til tveggja ára en hann lék á sínum tíma 7 yngri landsleiki og skoraði í þeim 1 mark.
„Það er frábært að búið sé að klára samninga við Albert og Odd enda toppdrengir, uppaldir hjá félaginu. Þetta lýsir stemningunni vel, við viljum koma sterkir til baka eftir erfitt sumar í Árbænum,“ segir Þorvaldur Árnason, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Fylki.
„Ég sem við félagið til þriggja ára því Fylkir er mitt félag og mér líst vel á það hvernig félagið og allir í kringum klúbbinn eru samstiga í því að koma Fylki aftur upp meðal þeirra bestu þar sem okkar flotti klúbbur á að vera. Einnig er ég hungraður að leggja meira á mig persónulega og hjálpa mínum klúbbi að komast aftur á réttan stað, hefði ekki getað farið frá klúbbnum á þessum nótum. Ég elska klúbbinn og fólkið í kringum hann og hlakka til að hjálpast að við það að gera 50 ára afmæli félagsins eftirminnilegt,“ segir Albert Brynjar, leikmaður Fylkis.
„Það kom ekkert annað til greina en að vera áfram hjá Fylki. Þetta er frábært félag og hérna líður mér vel. Nú þurfa bara allir að standa saman, allir sem koma að félaginu. Ég hlakka til að takast á við framhaldið með nýjum þjálfurum og vonandi verður afmælisárið okkur Fylkisfólki gott. Það verður gaman að labba út á völl næsta sumar og spila fyrir framan okkar frábæru stuðningsmenn. Þar má nefna menn eins og Björn Metúsalem, Daníel Freyr Guðmundsson og Sigurð Þór Reynisson,“ segir Oddur Ingi, leikmaður Fylkis.