Yrði gaman að fá annan gullskó

Viðar Örn Kjartansson er hefur spilað í Ísrael síðustu mánuði …
Viðar Örn Kjartansson er hefur spilað í Ísrael síðustu mánuði en er enn markahæstur í Svíþjóð. AFP

„Já, það gleymist kannski aðeins að ég hafi orðið meistari og ég myndi segja að ég eigi einhvern þátt í meistaratitlinum,“ sagði landsliðsmaðurinn Viðar Örn Kjartansson í samtali við Morgunblaðið en Viðar getur nú bætt í ferilskrá sína að hann er sænskur meistari með Malmö líkt og Kári Árnason. Viðar Örn er þó ekki lengur liðsmaður Malmö en í ágúst var hann seldur til ísraelska liðsins Maccabi Tel-Aviv. Fram að því lék hann 20 leiki með Malmö á tímabilinu og skoraði í þeim 14 mörk og á góða möguleika á að hreppa gullskóinn en þegar tveimur umferðum er ólokið í sænsku úrvalsdeildinni er hann markahæstur og hefur skorað einu marki meira en næsti maður.

„Það er gaman að hafa átt þátt í meistaratitlinum. Ég hef auðvitað fylgst með sænsku deildinni eftir að ég fór til Ísraels. Þetta var jafnt til að byrja með en þegar líða tók á tímabilið sá ég fyrir mér að Malmö myndi klára þetta. Malmö er að mínu viti langsterkasta liðið í deildinni og verðskuldar titilinn,“ sagði Viðar Örn.

Óraði ekki fyrir þessu

Viðar Örn varð markakóngur í Noregi 2014 með Vålerenga og gæti orðið markakóngur í Svíþjóð eins og áður segir.

„Það yrði ansi gaman ef það gerðist. Þegar ég fór í ágúst óraði mig ekki fyrir því að ég gæti endað sem markahæsti leikmaður deildarinnar en nú er ágætis möguleiki á því. Það yrði hreint ekki leiðinlegt að fá gullskó í annað skipti á þremur árum. Núna er maður kannski aðeins farinn að hugsa um tvö til þrjú dauðafæri sem maður brenndi af og að hafa ekki verið á markaskónum til að byrja með en ég held að mér hafi ekki tekist að skora í sex fyrstu leikjunum,“ sagði Viðar Örn en Kári Árnason sagði í samtali við mbl.is að hann ætlaði að taka með sér medalíuna fyrir Viðar og færa honum þegar landsliðið kemur saman á Ítalíu fyrir leikinn á móti Króötum í undankeppni HM í næsta mánuði. „Það verðu veisla og ég hlakka til að taka á móti henni,“ sagði Viðar.

Nánar er rætt við Viðar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert