Fylkir fær markaskorara af Króknum

Jesse Shugg.
Jesse Shugg. Ljósmynd/Fylkir

Knattspyrnudeild Fylkis hefur samið við Jesse Shugg, fyrrverandi leikmann Tindastóls, um að spila með Fylki í Pepsi-deild kvenna næsta sumar.

Shugg er sóknarmaður, fædd árið 1992. Hún skoraði 11 mörk í 7 leikjum með Tindastóli í 1. deildinni síðasta sumar. Shugg er fædd í Kanada en er með tvöfalt ríkisfang og hefur spilað 8 landsleiki fyrir Filippseyjar, og skorað í þeim 3 mörk.

„Fylkir er búið að vera í efstu deild í nokkur ár og þeir sem ég þekki á Íslandi töluðu mjög vel um félagið og mæltu með þessu fyrir mig. Eins heyrði ég að Nonni (Jón Aðalsteinn) sé mjög góður þjálfari og ég vona að það verði góð reynsla að vinna með honum og eins liðinu. Mitt markmið er gera eins vel og ég get og vonandi náum við í Fylki að færa okkur ofar í töflunni á næsta ári,“ sagði Shugg í fréttatilkynningu frá Fylki.

„Það er frábært að fá Jesse til okkar. Ég var búinn að heyra svo margt gott um hana og því vildum við reyna að fá hana til að koma í Árbæinn. Við erum ennþá á fullri ferð að vinna í að styrkja okkur. Þetta verður vonandi flott blanda af góðum Fylkisstelpum og leikmönnum sem vilja koma í Árbæinn og taka slaginn með okkur,“ sagði Jón Aðalsteinn Kristjánsson, þjálfari Fylkis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert