Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er í löngu viðtali við enska dagblaðið Sun um árangur Íslands og leikinn framundan við Króata í undankeppni heimsmeistaramótsins á laugardag.
„Ég er ekki hissa á því hversu mikil áhrif frammistaða Íslands á EM hafði á fólk, vegna þess sem við náðum að afreka. Ég hefði ekki getað giskað á þetta fyrir mótið, en þetta var mikið afrek. Við erum aðeins 330 þúsund manna þjóð og þegar maður hugsar um það er það ótrúlegt hvað við gerðum á EM,“ sagði Ragnar í viðtalinu og að hlutirnir hafi breyst mikið síðan þá.
„Lífið er allt öðruvísi. Sem varnarmaður fékk ég aldrei neina athygli fyrir EM og fólk þekkti mig varla. En núna finnst mér eins og allir séu að stara á mig, sem mér fannst óþægilegt í fyrstu. En ég verð að venjast þessu,“ sagði Ragnar, sem yfirgaf rússneska félagið Krasnodar og gekk í raðir Fulham á Englandi.
„Mér finnst gaman að labba um London því enginn þekkir mig hérna, sem er frábært. Þegar ég spilaði í Svíþjóð fékk ég smá athygli, en ekkert miðað við hvernig hún hefur verið eftir EM. Ísland er mjög lítið land og það er enginn að pirrast í þér, en fólk horfir þeim mun meira. Ég held það sé eðlilegt miðað við hvað við afrekuðum,“ sagði Ragnar.
Ísland mætir Króatíu í fjórða leik sínum í undankeppni HM á laugardag og Ragnar segir að íslenska liðið mæti óhrætt í leikinn.
„Við erum með sjö stig eftir þrjá leiki og vorum óheppnir að vinna ekki fyrsta leikinn líka. Nú erum við að fara í sennilega okkar erfiðasta leik, gegn Króatíu úti, en málið með okkur er að við trúum því sem við erum að gera. Við trúum því að við getum gert stóra hluti aftur,“ sagði Ragnar og talar um þann uppgang sem hefur verið hér á landi.
„Fyrir sex árum hefðum við búist við því að verða fyrir bursti en nú förum við í leikinn með sigur í huga. Það er góð tilfinning. Þeir eru með stærri leikmenn og þekktari nöfn en við, en við höfum góða möguleika að okkar mati,“ sagði Ragnar og bætti við að sama hvaða stjörnum sem hann mætir; þá vill hann ekki skipta um treyju við neina þeirra.
„Ég skipti aldrei um treyju og það skiptir mig engu máli. Ég hugsa bara með mér hvað ég muni eiginlega gera við hana? Ég mun aldrei klæðast henni svo það er enginn tilgangur. Ekki fara þær upp á vegg hjá mér. Sumir vilja skipta á treyjum til minningar um stóra leiki og ég mundi kannski skilja það ef það væru treyjur Messi eða Ronaldo. En þetta er ekki fyrir mig,“ sagði Ragnar.