Níu leikmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem leikur við Króatíu í Zagreb á laugardaginn kl. 17 eiga harma að hefna eftir tapið á Maksimir-leikvanginum fyrir þremur árum síðan, þegar Ísland missti af sæti á HM í Brasilíu.
Ísland tapaði leiknum 2:0, eftir markalaust jafntefli á Laugardalsvelli, en liðin áttust við í HM-umspili. Mario Mandzukic kom Króötum yfir á 27. mínútu en var svo rekinn af velli tíu mínútum síðar fyrir ljótt brot á Jóhanni Berg Guðmundssyni. Strax í upphafi seinni hálfleiks skoraði svo Darijo Srna seinna mark Króata. Íslandi tókst ekki að nýta sér liðsmuninn og átti aðeins tvö skot sem hittu á markið gegn 11 skotum heimamanna.
Í byrjunarliði Íslands í þessum leik voru níu leikmenn sem allt bendir til þess að byrji einnig leikinn gegn Króötum nú. Þetta eru markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson, varnarlínan sem þeir Birkir Már Sævarsson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson og Ari Freyr Skúlason skipa, og miðjumennirnir fjórir sem byrjað hafa flesta leiki; Jóhann Berg Guðmundsson, Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Birkir Bjarnason.
Í umspilsleiknum 2013 voru þeir Eiður Smári Guðjohnsen og Alfreð Finnbogason fremstu menn, en Kolbeinn Sigþórsson hafði meiðst í fyrri leiknum í Laugardal og gat ekki spilað. Allir þrír eru hins vegar meiddir núna, sem og framherjinn Björn Bergmann Sigurðarson. Ljóst má vera að Jón Daði Böðvarsson spili nú en hann var ekki kominn í landsliðið á þessum tíma.
Athygli vekur að af 11 varamönnum í leiknum fyrir þremur árum er aðeins Arnór Smárason í hópnum núna, og hann var kallaður inn í hópinn á síðustu stundu að þessu sinni vegna meiðsla Björns. Emil Hallfreðsson var sömuleiðis varamaður og kom inn á fyrir þremur árum, en gat ekki verið með núna vegna meiðsla. Auk Emils kom Rúrik Gíslason inn á í téðum leik en hann hefur ekki verið í landsliðinu undanfarin misseri.
Króatíska liðið er talsvert breytt frá því fyrir þremur árum. Fyrirliðinn Darioj Srna hætti til að mynda eftir EM í sumar. Af þeim sem spiluðu leikinn við Ísland eru í hópnum núna þeir Vedran Corluka, Ivan Perisic, Ivan Rakitic, Luka Modric, Mateo Kovacic og Mario Mandzukic. Modric og Corluka eru leikjahæstir með 94 landsleiki hvor.