Ítalski dómarinn svekkti Íslendinga

Dæmd var aukaspyrna á Kára Árnason undir lok leiksins gegn …
Dæmd var aukaspyrna á Kára Árnason undir lok leiksins gegn Tyrkjum fyrir ári síðan og úr henni kom sigurmark. Ísland vann hins vegar 2:0-sigur á Tyrkjum í síðasta mánuði. mbl.is/Golli

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur áður leikið mótsleik þar sem ítalski dómarinn Gianluca Rocchi dæmir, en hann verður með flautuna þegar Ísland mætir Króatíu í undankeppni HM í Zagreb á laugardaginn kl. 17.

Rocchi, sem er 43 ára, hefur dæmt um árabil í ítölsku A-deildinni og dæmdi sinn fyrsta landsleik í apríl 2009.

Rocchi dæmdi leik Íslands gegn Tyrklandi í Konya fyrir rúmu ári, í lokaumferð undankeppni EM. Ísland hafði þegar tryggt sér sæti á EM en Tyrkir náðu einnig sæti með dísætum 1:0-sigri, þar sem Selcuk Inan skoraði sigurmarkið úr aukaspyrnu rétt fyrir leikslok. Íslendingar voru afar óánægðir með að aukaspyrnan skyldi dæmd en Rocchi hafði talið Kára Árnason brotlegan í skallaeinvígi rétt utan teigs. Ekki er þó hægt að segja að Rocchi hafi dregið taum Tyrkja sérstaklega í leiknum en hann sýndi til að mynda Gökhan Töre beint rautt spjald korteri fyrir leikslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert