Íslendingar hafa ekki riðið feitum hesti frá fyrri viðureignum sínum gegn Króatíu í knattspyrnu karla, en þjóðirnar mætast á Maksimir-leikvanginum í Zagreb kl. 17 í dag.
Þjóðirnar hafa mæst fjórum sinnum áður og hefur Ísland aldrei fagnað sigri. Fyrst mættust þær á Maksimir-leikvanginum í undankeppni HM 2006, þar sem Króatar unnu 4:0-sigur. Enginn núverandi leikmanna landsliðsins spilaði leikinn en Kári Árnason sat á varamannabekknum.
Þjóðirnar mættust svo öðru sinni á Laugardalsvelli í sömu undankeppni, þar sem Króatía vann 3:1-sigur. Eiður Smári Guðjohnsen skoraði þá eina markið sem Ísland hefur skorað gegn Króatíu til þessa, þegar hann kom Íslandi yfir í fyrri hálfleik. Bosko Balaban skoraði tvö mörk í seinni hálfleik og Darijo Srna það þriðja úr vítaspyrnu. Kári Árnason lék síðustu 11 mínútur leiksins.
Næst mættust þjóðirnar svo í umspilsleikjunum fyrir HM 2014, í nóvember 2013. Þær gerðu markalaust jafntefli á Laugardalsvelli en Króatía vann seinni leikinn 2:0 þrátt fyrir að missa Mario Mandzukic af velli með rautt spjald í fyrri hálfleik. Mandzukic og Darijo Srna skoruðu mörkin. Ísland á því enn eftir að finna netmöskvana á Maksimir-leikvanginum.