Kjánalegt að dómarinn sjái þetta ekki

Birkir Bjarnason í baráttu við Ivan Rakitic í Zagreb í …
Birkir Bjarnason í baráttu við Ivan Rakitic í Zagreb í kvöld. AFP

„Þetta var pjúra víti,“ sagði Birkir Bjarnason um atvik sem átti sér stað í fyrri hálfleik í 2:0-sigri Króatíu á Íslandi í Zagreb í kvöld, í undankeppni HM í knattspyrnu.

Tveggja marka tap í Zagreb

Atvikið átti sér stað eftir tæplega hálftíma leik þegar Mario Mandzukic og Birkir börðust um skallabolta í vítateig Króata.

„Ég hoppaði upp í skallabolta og hann setti bara olnbogann í andlitið á mér. Það er kjánalegt að dómarinn sjái þetta ekki. Víti í stöðunni 1:0 hefði gert þetta að allt öðrum leik,“ sagði Birkir, sem var annars nokkuð ánægður með frammistöðu Íslands í leiknum.

„Við spiluðum bara vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Eftir að Modric kom inn á var auðvitað erfitt að stoppa hann en við spiluðum ágætlega. Við slepptum hins vegar inn tveimur hrikalega auðveldum mörkum, sem á ekki að gerast, og við verðum að fara yfir þetta,“ sagði Birkir. „Við vorum alveg með sénsa til að komast í góð færi en í dag nýttum við þá ekki,“ bætti hann við.

Ivan Perisic var rekinn af velli með beint rautt spjald undir lok leiksins, fyrir brot á Birki:

„Ég ætlaði bara að spila boltanum fram, án þess að sjá hann, og held að ég hafi fengið takkana í mig. Hann hlýtur bara að hafa ætlað að taka boltann en var of seinn,“ sagði Birkir.

Ísland mætir næst Kósóvó á útivelli í mars og með sigri þar yrði liðið með 10 stig eftir fyrri helming riðlakeppninnar. Króatar eru efstir í riðlinum núna með 10 stig en Ísland er með sjö.

„Við byrjuðum undankeppnina mjög vel en erum mjög svekktir með þennan leik og finnst við hafa átt að fá meira út úr honum. En þegar þeir fá tvö svona auðveld mörk þá er þetta erfitt. Hinir leikirnir hafa verið góðir og við ættum að vera ánægðir með það,“ sagði Birkir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert