Þeir eru ekkert betra lið en við

Kári Árnason, Domagoj Vida og Ragnar Sigurðsson í baráttunni á …
Kári Árnason, Domagoj Vida og Ragnar Sigurðsson í baráttunni á Maksimir-vellinum í kvöld. AFP

„Mér fannst við góðir í fyrri hálfleik og með stjórn á leiknum. Þeir fengu auðvitað færi sem Hannes varði frábærlega, en sköpuðu annars lítið og mér fannst þetta frekar þægilegur leikur að spila,“ sagði Kári Árnason landsliðsmiðvörður eftir 2:0-tapið gegn Króötum í undankeppni HM í knattspyrnu í kvöld.

„Undirlagið var auðvitað ekki gott og menn kannski ekki alveg nógu öruggir með boltann. Í seinni hálfleik sóttum við kannski ekki alveg nógu ákveðið í að skora, og vorum kannski að bíða aðeins eftir því að lengra liði á leikinn með að taka einhverjar áhættur. Svo endar það oft þannig þegar maður tekur áhættu að maður fær mark í bakið,“ sagði Kári, en Króatar skoruðu seinna mark sitt undir lok leiksins.

Kári vildi lítið gera úr því að Ísland hefði saknað markahrókanna Alfreðs Finnbogasonar og Kolbeins Sigþórssonar.

Góðir í að loka á sendingaleiðirnar til Gylfa

„Þeir voru helvíti góðir í að loka á sendingaleiðir til Gylfa. Það var erfitt að finna hann en þegar það tókst þá sá maður gæði okkar skína í gegn. Jói fór illa með bakvörðinn þeirra þegar hann fékk boltann, og Theódór Elmar sömuleiðis, en þetta var svolítið mikið miðjuþóf og völlurinn ekki sá besti. Heilt á litið þá finnst mér þeir ekkert vera betra lið heldur en við. Þeir eru auðvitað með menn sem geta brotið upp leikinn í nokkrum stöðum, og Modric tók stundum bara snertingu framhjá mönnum og sýndi gæði sín, en í heild erum við ekki slakara lið. Það hefði alveg verið eðlilegt að leikurinn færi 1:1 miðað við hvernig hann spilaðist,“ sagði Kári.

Hann segir leikinn í kvöld hafa verið allt annan en fyrir þremur árum, þegar Króatar tryggðu sér sæti á HM í Brasilíu með sigri á Íslandi, þó að úrslitin hafi orðið þau sömu.

„Við áttum mikið meira í þessum leik. Þeir yfirspiluðu okkur, manni færri, síðast og þetta sýnir alveg hversu langt við erum komnir. Við erum traustir og þeir sköpuðu fá færi, og við fengum færi sem við hefðum alveg getað skorað úr. Aron fékk svipað skotfæri og þeir fengu þegar þeir skoruðu, en í tilfelli Arons náði einhver að koma löpp fyrir skotið sem hefði annars bara farið í hornið. Svona er fótboltinn. En við gerum okkur grein fyrir því hvað þetta er gott lið sem við vorum að spila á móti, og ef þeir komast yfir eru þeir helvíti góðir í að halda stöðu. Við vorum ekki alveg nógu góðir í að brjóta þá niður,“ sagði Kári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert