Verðum að sækja stigin annað

Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. AFP

„Staða okkar í riðlinum versnaði aðeins við þetta en er engu að síður ágæt,“ sagði Hannes Þór Halldórsson landsliðsmarkvörður eftir 2:0-tapið gegn Króötum í undankeppni HM í knattspyrnu í kvöld.

Króatar eru efstir í riðlinum með 10 stig en Ísland er með sjö stig úr fyrstu fjórum leikjum sínum. „Öruggasta leiðin til að fara áfram er auðvitað að ná efsta sætinu, við mætum brjálaðir í næsta leik gegn Kósóvó og svo eru það Króatarnir heima, og við verðum bara að taka þá þar,“ sagði Hannes, sem var nokkuð sáttur með frammistöðu íslenska liðsins í leiknum:

„Þetta var ágætt bara, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þá vorum við fínir og með fína stjórn á leiknum, sérstaklega þar til að þeir skoruðu. Það er mjög fúlt að þeir hafi skorað þetta mark, og svo vantaði kannski aðeins upp á þetta í seinni hálfleik en við vorum samt alltaf inni í þessu. Þetta var ágætis leikur miðað við hvað við vorum að spila gegn sterku liði á útivelli.“

Síðast þegar Hannes mætti með íslenska liðinu á Maksimir-völlinn fóru leikar einnig 2:0, en Hannes segir mikinn mun á leiknum í kvöld og HM-umspilsleiknum fyrir þremur árum.

„Þó að báðir leikirnir hafi farið 2:0 þá var stór munur á þeim og við vorum miklu nær því að taka eitthvað út úr þessu í dag. Við erum komnir lengra núna, búnir að upplifa ótrúlega hluti síðan við vorum hérna síðast og allir orðnir leikreyndari og betra lið. Mér fannst við sýna það í dag, á erfiðasta útivelli riðilsins. Það var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik og við hefðum alveg eins og þeir getað verið með 1:0-forskot í hálfleik. Því miður þá féll þetta ekki með okkur og við verðum að sækja stigin annað því við ætlum okkur áfram,“ sagði Hannes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert