Einn af hverjum 16 leikmönnum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu er með á bilinu 915.000 – 1,7 milljón króna í laun á mánuði. Fjórtán prósent leikmanna hafa orðið fyrir áreitni eða einelti af hálfu stuðningsmanna, leikmanna, þjálfara eða stjórnarmanna, og 4% hafa verið beðnir um taka þátt í veðmálasvindli.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri, alþjóðlegri könnun á vegum FIFPro, alþjóðlegra samtaka atvinnuknattspyrnumanna. Könnunin skiptist í sex meginþætti; skilmála samninga, drátt á launagreiðslum, félagaskipti, áreitni, veðmálasvindl og heilsumál.
Alls tóku 54 þjóðir þátt en það voru Leikmannasamtök Íslands sem sáu um að leggja könnunina fyrir hér á landi. Átta af 12 liðum Pepsi-deildarinnar tóku þátt, og svöruðu 147 leikmenn, þar af voru 80% íslenskir. Þrjú félög, Víkingur R., Þróttur R. og Stjarnan, gáfu ekki leyfi fyrir því að leikmenn félaganna tækju þátt, og ekki tókst að finna hentugan tíma með leikmönnum Víkings Ólafsvík.
Meðallaun leikmanna í Pepsi-deild karla eru á bilinu 69.000 – 114.000 krónur á mánuði. Tæplega 20% leikmanna eru með að minnsta kosti 460.000 krónur í laun á mánuði, og 6,4% eru með 915.000 – 1,7 milljón á mánuði. Inni í þessum upphæðum eru meðallaunabónusar leikmanna, en ekki fríðindi á borð við húsnæði og bíl. Út frá þessu má með einföldun segja að að meðaltali sé að lágmarki einn leikmaður í hverju Pepsi-deildarliði með að minnsta kosti milljón á mánuði, en ljóst er að það er mismunandi á milli félaga. Enginn var með hærri mánaðarlaun en 1,7 milljón króna.
Athygli vekur að 41% leikmanna eru verktakar og er það baráttumál hjá leikmannasamtökunum að leikmenn verði frekar launþegar, segir Kristinn Björgúlfsson, formaður samtakanna. Um 3% leikmanna eru ekki með skriflegan samning. Meðalsamningslengd er 2 ár og 4 mánuðir.
Alls hafa 36% leikmanna glímt við það vandamál á síðustu tveimur árum að fá ekki laun greidd á réttum tíma. Langflestir þeirra þurfa að bíða í að hámarki 1 mánuð eftir launum sínum, en 8% hafa þurft að bíða í 1-3 mánuði og enginn lengur.
Sex prósent leikmanna hafa verið beittir þrýstingi til að skipta um félag gegn kaupverði. Fimmtán prósent þeirra voru keyptir á milli félaga en 26% komu úr yngri flokkum viðkomandi félags.
Í könnunni voru leikmenn einnig spurðir hvort þeir hefðu orðið fyrir líkamsmeiðingum, ofbeldishótunum, áreitni eða mismunun, af hálfu stuðningsmanna, leikmanna, stjórnarmanna eða þjálfara félaga. Alls sögðust 14% hafa orðið fyrir áreitni (e. bullying/harassment), og 5% höfðu orðið fyrir mismunun af einhverju tagi. Spurt var sérstaklega hvort að leikmenn hefðu einhvern tímann verið neyddir til að æfa einir, og hafði enginn leikmaður Pepsi-deildarinnar lent í því.
Fjórir af þeim 147 leikmönnum sem svöruðu höfðu orðið fyrir ofbeldi af hálfu stuðningsmanna.
Sex leikmenn höfðu einhvern tímann á ferlinum verið beðnir um að hafa óeðlileg áhrif á úrslit leikja, vegna veðmála. Hlutfallið er svipað og á öðrum Norðurlöndum. Í skýrslu um rannsóknina kemur fram að 11% líkur séu á því hjá knattspyrnumönnum að verða einhvern tímann á ferlinum beðnir um að taka þátt í veðmálasvindli.
Loks vekur athygli að einn af hverjum fimm leikmönnum Pepsi-deildar karla er óánægður með þá heilsugæslu sem hann nýtur hjá sínu félagi, en ekki fylgdu nánari spurningar um að hvaða leyti leikmenn teldu þessum þætti ábótavant.
Leikmannasamtök Íslands vinna að gerð sams konar könnunar í Pepsi-deild kvenna en þar er ekki um alþjóðlega könnun að ræða. Niðurstöður þeirrar könnunar ættu að liggja fyrir á næsta ári en 4 lið af 10 hafa þegar svarað henni.